Lífið

Drum & Bass tónlist í fyrirrúmi

Tinna Rós Steinsdóttir skrifar
Þeir Andri, Elvar Ingi, Aggi Agzilla og Ari Plasmic eru miklir aðdáendur DNB-tónlistar.
Þeir Andri, Elvar Ingi, Aggi Agzilla og Ari Plasmic eru miklir aðdáendur DNB-tónlistar. Mynd/Ómar Sverrisson

„Við tókum okkur saman og héldum svona kvöld fyrir ári síðan og það gekk svo vel að við ákváðum að taka þetta upp núna og gera þetta að föstum lið,“ segir Elvar Ingi Helgason, sem er einn forsprakka svokallaðra RVK DNB klúbbakvölda sem hefja göngu sína á skemmtistaðnum Volta í kvöld.

Elvar segir mikið gap hafa myndast á markaðinn þegar breakbeat.is hætti störfum fyrir stuttu en þeir hafi sinnt þessari tónlistarstefnu vel. Elvar og félagar hans hafi því ákveðið að taka við og koma þessum kvöldum á fót, en aðstandendur kvöldanna eru auk Elvars þeir Andri Már Arnlaugsson, sem heldur utan um raftónlistarkvöld Extreme Chill, Ari S. Arnarsson, einnig þekktur sem DNB-tónlistarmaðurinn Plasmic, og Agzilla, sem er lifandi goðsögn í DNB-heiminum á Íslandi að sögn Elvars.

Sjálfur hefur svo Elvar staðið að RVK Soundsystem reggíkvöldunum síðastliðin þrjú ár. „Við höfum allir verið miklir DNB-aðdáendur um árabil svo þessi kvöld eru alveg jafn mikið gerð fyrir okkur og þá sem þau sækja,“ segir hann.

Á spilunarlista kvöldanna verður fjölbreytt DNB-tónlist og segir Elvar Ingi að þar verði að finna góða blöndu af nýju efni í bland við gamalt. „Á sama tíma og við kynnum fólk fyrir því sem er nýjast og heitast í dag þá viljum við líka leyfa því að heyra gömlu góðu lögin sem eru kannski í uppáhaldi hjá þeim,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.