Lífið

Plata fyrir lífsglatt og skemmtilegt fólk

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Dr. Gunni segir hann og Heiðu hafa verið með þessa hugmynd í kollinum í tvö ár en ákváðu að láta til skara skríða núna.
Dr. Gunni segir hann og Heiðu hafa verið með þessa hugmynd í kollinum í tvö ár en ákváðu að láta til skara skríða núna. Fréttablaðið/Valli

„Þetta er barnaplata innan sviga. Svona plata fyrir lífsglatt og skemmtilegt fólk,“ segir tónlistarmaðurinn Gunnar Lárus Hjálmarsson, sem er með nýja plötu í undirbúningi.

Platan hefur fengið nafnið Alheimurinn og er Dr. Gunni, eins og hann er kallaður, í aðalhlutverki ásamt söngkonunni Ragnheiði Eiríksdóttur og Elvari úr hljómsveitinni Hellvar og trommaranum Kristjáni Frey Halldórssyni.

Gunnar segir hann og Heiðu hafa verið með þessa hugmynd í kollinum í tvö ár en ákváðu að láta til skara skríða núna. „Við erum komin með fjórtán mjög góð lög sem við sömdum saman. Við erum á fullu að æfa núna og stefnum svo í stúdíó í byrjun júní,“ segir Gunnar en platan sjálf kemur ekki út fyrr en í október.

„Mér skilst að það séu tvær til þrjár góðar tímasetningar á ári til að gefa út plötu og þetta er ein af þeim.“

Það er útgáfufyrirtækið Geimsteinn sem gefur út plötuna og upptökur fara fram í stúdíó þeirra í Keflavík. Stofnandi Geimsteins, Rúnar Júlíusson, lék einmitt stórt hlutverk á síðustu plötu Gunnars, Abbababb, sem kom út 1997.

„Ég þarf að minnsta kosti þrjá þungavigtarpoppara til að koma í stað Rúnars sem var í hlutverki Hr. Rokks á síðustu plötu. Það verða stór nöfn gestasöngvarar á þessari plötu,“ segir Gunnar en vill ekki gefa upp nein nöfn enn þá. Þau stefna á að gefa frá sér fyrstu smáskífuna af plötunni Alheimurinn fyrir 17. júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.