Lífið

Eyðir sumrinu í vegavinnuskúr

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Gunnar Helgi Guðjónsson eldar ofan í gesti Hótels Látrabjargs í sumar. Fréttablaðið/valli
Gunnar Helgi Guðjónsson eldar ofan í gesti Hótels Látrabjargs í sumar. Fréttablaðið/valli
„Þetta verður svona eins og tveggja og hálfs mánaðar vertíð fyrir mig. Nóg að gera skilst mér,“ segir Gunnar Helgi Guðjónsson, myndlistarmaður og sigurvegari í Masterchef, en hann hefur ráðið sig sem kokk á Hótel Látrabjarg í Örlygshöfn á Patreksfirði í sumar.

Gunnar Helgi fékk starfið fyrir tilstilli Friðrikku Hjördísar Geirsdóttur sem einmitt var dómari í Masterchef. „Eiganda hótelsins vantaði kokk í sumar og Rikka benti á mig. Ég stökk á tækifærið en Patreksfjörður er einn af fáum stöðum á landinu sem ég hef aldrei komið til,“ segir Gunnar Helgi spenntur en hann fer um miðjan júní. „Mér skilst að ég gisti í vegavinnuskúr sem er spennandi út af fyrir sig. Svo hef ég sinnt myndlistinni lítið undanfarna mánuði og ætla að taka með mér teikniblokkina og vatnslitina vestur. Mjög rómantískt.“

Gunnar Helgi hefur haft nóg fyrir stafni síðan hann bar sigur úr býtum í raunveruleikakeppninni Masterchef. Hann hefur kennt á námskeiðum, kokkað á kaffi Nauthól og skrifað fyrir Gestgjafann. „Það er búið að vera nóg að gera. Svo er ég að leggja drög að matreiðslubók en það voru ein af verðlaununum í keppninni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.