Lífið

Vildi líkjast Loga Bergmann

Sara McMahon skrifar
Tómas Ingi Tómasson lét lita hár sitt fyrir fyrsta fótboltaleik tímabilsins. Auk þess hefur verið skerpt á augabrúnum fyrrverandi fótboltakappans, eins og hann orðar það sjálfur.
Tómas Ingi Tómasson lét lita hár sitt fyrir fyrsta fótboltaleik tímabilsins. Auk þess hefur verið skerpt á augabrúnum fyrrverandi fótboltakappans, eins og hann orðar það sjálfur. fréttablaðið/Vilhelm
Tómas Ingi Tómasson, álitsgjafi í þættinum Pepsi-mörkin á Stöð 2 Sport og fyrrverandi fótboltamaður, vakti mikla athygli er hann mætti dökkhærður í fyrsta þátt tímabilsins, en Tómas Ingi er ljóshærður frá náttúrunnar hendi. Auk þess hefur verið skerpt á augabrúnum fyrrverandi fótboltakappans, eins og hann orðar það.

„Ég ákvað að koma inn í mótið með pompi og prakt. Ég veit að fólki leiðist ekki að tala um aðra og mér skilst að Twitter hafi logað eftir þáttinn. En helsta ástæðan fyrir því að ég litaði hárið er sú að mig langaði að líkjast Loga Bergmann, hann er mentorinn minn og mín fyrirmynd á skjánum. Ég þekki hann vel og fallegri karlmaður finnst ekki,“ segir Tómas Ingi og hlær.

Hann viðurkennir að breytingarnar hafi ekki fallið í kramið hjá hans nánustu og átti hann sjálfur erfitt með að venjast þeim í fyrstu. „Þetta var hræðilegt til að byrja með. Ég fékk nett áfall þegar ég vaknaði daginn eftir og leit í spegil og við mér blasti dökkhærður maður. Fólkið í kringum mig var frekar ósátt við breytinguna og ætli mamma hafi ekki verið þeirra svekktust.“

Óráðið er hvort Tómas Ingi verði dökkhærður fram á haust og segist hann ætla að láta áhorfendur Stöðvar 2 um að ákveða framhaldið. „Ég ætla að fylgjast með Twitter og sjá hvað fólk hefur að segja. Ætli ég verði ekki svona fram á mitt mót,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.