Innlent

Æfa með Landhelgisgæslunni

Svavar Hávarðsson skrifar
Forystuskipið er ORP Czernicki frá Póllandi.
Forystuskipið er ORP Czernicki frá Póllandi. Mynd/NATO
Heimsókn fimm tundurduflaslæðara Atlantshafsbandalagsins til Íslands stendur fyrir dyrum. Skipin munu starfa með Landhelgisgæslunni og æfa tundurduflavarnir og fleira meðan á dvöl þeirra hér við land stendur.

Flotinn samanstendur af fimm skipum, frá Póllandi, Belgíu, Þýskalandi, Noregi og Hollandi. Helstu verkefni skipanna felast í að leita að tundurduflum og sprengjum í sjó og eyða hlutum sem fólki getur stafað hætta af. Einnig sinna þau slökkvistörfum og sjúkraflutningum þegar á þarf að halda. Forystuskip flotans er pólska skipið ORP Czernicki. Atlantshafsbandalagið rekur tvo flota tundurduflaslæðara. Er þetta flotinn sem sinnir norðursvæðinu, en á síðastliðnum 100 dögum hafa skipin heimsótt tíu hafnir í sex þjóðlöndum.

Skipin koma til Íslands eftir að hafa tekið þátt í æfingu á Norðursjó en fyrr á árinu tók flotinn þátt í fjölþjóðlegu verkefni sem fór fram við strendur Belgíu, Hollands og Bretlands. Þar fundu skipin og eyddu átta neðansjávarsprengjum sem innihéldu samtals tvö tonn af TNT-sprengiefni.

Skipin verða staðsett við Skarfabakka og er almenningi boðið að koma um borð næstu tvær helgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×