Innlent

Bættu 18 milljónum við lán í skuldaskjóli

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi Umboðsmanns skuldara, kynnir endurútreikning lána á vef Umboðsmanns í desember síðastliðnum.
Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi Umboðsmanns skuldara, kynnir endurútreikning lána á vef Umboðsmanns í desember síðastliðnum. Fréttablaðið/GVA
Dæmi eru um að lánafyrirtæki hafi bætt dráttarvöxtum við lán sem áður nutu skjóls vegna greiðsluaðlögunar hjá Umboðsmanni skuldara.

Fréttablaðið hefur undir höndum gögn um endurútreikning Dróma á fasteignaláni frá Frjálsa hf. þar sem bætt hafði verið við dráttarvöxtum upp á tæpar 18,5 milljónir króna.

Í því tilviki hafði skuldarinn séð, eftir að hafa farið með lán sitt, sem stóð í 37 milljónum króna, í gegnum reiknivél á vef Umboðsmanns skuldara, að ná mætti höfuðstól lánsins niður í um 24 milljónir króna og leitaði á þeim forsendum samninga við Dróma og vildi hefja greiðslur á láninu.

Endurútreikningur Dróma fór með höfuðstól lánsins í um 24,4 milljónir, en þegar dráttarvextirnir bættust við var skuldin komin í tæpar 42,5 milljónir. Ekkert varð því úr samningum.

Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi Umboðsmanns skuldara, segir að nokkur erindi hafi borist embættinu vegna dráttarvaxta sem lagðir hafa verið á á greiðsluskjólstímabil. Viðkomandi skuldarar hafi notið skuldaskjóls og hætt við greiðsluaðlögunarferlið, eða fallið úr því af öðrum orsökum. „Og við höfum í samskiptum við kröfuhafa áréttað okkar skilning á því af hverju þetta megi ekki.“

Fái fólk endurútreikning með dráttarvöxtum sem ná yfir skuldaskjólstímabil segir Svanborg að snúa megi sér til Umboðsmanns skuldara vegna þeirra mála. „Þá þarf að mótmæla dráttarvaxtakröfunum á grundvelli sjöundu greinar laga um vexti og verðbætur,“ segir hún, en í lögunum kemur fram að verði atvik sem hvorki er hægt að kenna kröfuhafa eða skuldara um til þess að greiðsla fari ekki fram, þá skuli „ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum“. Sama eigi við ef greiðsla fer ekki fram vegna þess að skuldari neyti vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa „eða haldi af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar“.

Svanborg bendir á að á tímabili greiðsluskjóls sé skuldara með lögum bannað að greiða af kröfum og kröfuhafa bannað að taka á móti greiðslum. „Og þá verður kröfuhafa og skuldara ekki kennt um að greiðsla fari ekki fram,“ segir Svanborg.

Gögn Í gögnum sem blaðið hefur undir höndum má sjá hvernig dráttarvöxtum var bætt við lán í endurútreikningi Dróma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×