Innlent

Bílstjóri braut ítrekað á farþega

lögreglumál Bílstjóri hjá Ferðaþjónustu fatlaðra í Kópavogi braut fyrr á þessu ári ítrekað á þroskaskertri konu sem ferðaðist með fyrirtækinu. Konan tilkynnti áreitnina á vinnustað sínum. Málið hefur ekki verið kært til lögreglu.

Í bréfi sem sent var frá vinnustað konunnar til yfirmanns Ferðaþjónustu fatlaðra í Kópavogi segir að maðurinn hafi ítrekað haldið utan um hana, sagst elska hana og kysst hana á munninn. Sú háttsemi hafi varað í einhverjar vikur. Þá hafi hann sagst hlakka til að hitta hana aftur til að fá annan koss þegar skipt var um bílstjóra í eitt skipti.

Systir konunnar segir bílstjórann hafa mútað henni með kókflöskum til að hún segði ekki frá, hafa sagt henni að hann ætti börn og hún mætti ekki segja frá samskiptum þeirra undir nokkrum kringumstæðum.

Yfirmaður Ferðaþjónustu fatlaðra, Einar Valsson, neitaði að tjá sig um málið við Fréttablaðið en yfirmaður konunnar segir hann hafa ætlað að ræða við umræddan bílstjóra þegar bréfið var sent fyrir tveimur mánuðum.

Greint var frá því í blaðinu í gær að bílstjóri á vegum fyrirtækisins hefði verið kærður fyrir nauðgun um miðjan mars og honum þá sagt upp störfum. Ekki fæst uppgefið hvort um sama mann er að ræða. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×