Skoðun

Upphlaup formanns Gerplu

Ármann Kr. Ólafsson skrifar
Jón Finnbogason, formaður Gerplu í Kópavogi, fór mikinn í Fréttablaðinu í gær, þar sem hann með rakalausum málflutningi heldur því fram að vísa þurfi börnum frá íþróttaiðkun vegna óbilgirni Kópavogsbæjar.

Ég skil ekki hvað Jóni gengur til en vil byrja á því að árétta að það er rangt hjá honum að þúsund börn séu á biðlista hjá Gerplu. Samkvæmt þeirra eigin tölum voru 528 börn á biðlista sl. haust. Þar af voru 206 börn, frá sex ára aldri, úr Kópavogi. Á sama tíma voru 300 iðkendur Gerplu búsettir utan Kópavogs. Þetta þýðir með öðrum orðum að „vandi“ Gerplu felst í því að um þriðjungur félagsmanna er ekki Kópavogsbúar. Það getur ekki hvílt nein skylda á skattgreiðendum Kópavogs að greiða fyrir nýtt húsnæði þegar félagið er þannig samsett. Eða eiga bæjarbúar að borga fyrir íþróttaiðkun þeirra sem búa ekki í bænum á sama tíma og þeirra eigin börn komast ekki að?

Íþróttahúsin vel nýtt

Einnig vil ég nefna, og vísa í nýlega samantekt því til staðfestingar, að íþróttahúsin í Kópavogi eru að öllu jöfnu vel nýtt. Með því að halda öðru fram, eins og Jón gerir, er verið að gera lítið úr starfi HK og Breiðabliks sem eru í hópi öflugustu íþróttafélaga landsins. Gerpla hefur góða aðstöðu og til umráða stærsta íþróttahús landsins, skv. samningi við bæinn. Ekki stendur til að reisa aðra fimleikahöll enda engin þörf á því.

Erindi Gerplu frá sl. hausti var svarað með bréfi dagsettu 1. nóvember 2012, ólíkt því sem Jón heldur fram, þar sem afstaða bæjarins var rakin. Þar var áréttað að Gerplu var boðin aðstaða í íþróttahúsum Kársnesskóla og Lindaskóla sem ekki var þegin.

Það er mjög miður, svo vægt sé til orða tekið, að Jón kjósi að ráðast til atlögu að Kópavogsbæ sem hefur búið fimleikafólki sínu bestu mögulegu aðstöðu á landinu öllu. Um það vitnar glæsilegur árangur íþróttafólksins okkar nú síðast á Íslandsmóti í hópfimleikum um liðna helgi.




Skoðun

Sjá meira


×