Lífið

Stofna ofurgrúppu

Freyr Bjarnason skrifar
Meðlimir nýju ofurgrúppunnar sem hitar upp fyrir Deep Purple í Laugardalshöll í júlí. Mynd/Alma geirdal
Meðlimir nýju ofurgrúppunnar sem hitar upp fyrir Deep Purple í Laugardalshöll í júlí. Mynd/Alma geirdal
„Við erum að þessu til að hafa gaman af þessu, njóta þess að vera saman og út af forvitni,“ segir tónlistarmaðurinn Magnús Kjartansson. Fyrrverandi meðlimir Trúbrots, Mána, Náttúru og Pelican hafa stofnað ofurgrúppu sem mun hita upp fyrir Deep Purple á tónleikum í Laugardalshöll 12. júlí. Hljómsveitina skipa Magnús Kjartansson, Gunnar Þórðarson, Ragnar Sigurjónsson, Smári Kristjánsson, Björgvin Gíslason og Ásgeir Óskarsson, auk þess sem reynt verður að fá söngkonuna Shady Owens með í för. „Við erum að pæla í að reyna við hana einu sinni enn,“ segir Magnús, sem gerði garðinn frægan með Trúbroti.

Ofurgrúppan, sem hefur enn ekki fengið nafn, hélt fund í hljóðveri Magnúsar á sunnudag þar sem lagðar voru línurnar fyrir framhaldið. „Þetta kom til vegna hvatningar frá þeim sem standa fyrir Purple-tónleikunum og aðdáendum þessa tímabils í íslensku tónlistarsögunni,“ segir Magnús. Draumurinn var að gera grúppu úr liprustu og frískustu aðilum þeirra hljómsveita sem voru vinsælar upp úr 1970 á progressive-tónlistartímabilinu eins og það var oft kallað.

Þarna eru menn sem náðu aldrei saman á þessum tíma vegna þess að þeir tilheyrðu sinni klíku og sínum hópi,“ segir hann og lofar flottum tónleikum. „Við ætlum ekki að veigra okkur við að fara í erfiðasta „stöffið“ enda allt saman menn í ágætis formi.“ Aðspurður segir hann það koma til greina að hljómsveitin haldi áfram störfum eftir tónleikana. „Þetta er eins og með landsliðið í fótbolta, það er bara tekinn einn leikur í einu. Þetta er næsti leikur og hann verður spilaður alveg til blóðs. En það svíkst enginn undan kallinu ef það skyldi koma, því þetta er svolítið skemmtilegur „katalóg“ sem er að opnast.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.