Lífið

Syngur með Sölva

Álfrún Pálsdóttir skrifar
„Þegar við tókum upp lagið kom upp gamli Quarashi-aðdáandinn í mér,“ segir söngkonan Rakel Mjöll Leifsdóttir, sem syngur með rapparanum Sölva Blöndal og sveitinni Halleluwah í laginu Blue Velvet.

Rakel er menntuð í djasssöng frá FÍH og hefur sungið með sveitunum Sykri og Útidúr en söðlaði um í haust er hún hóf nám í tónsmíðum og sjónlist í Brighton. Hún var þá tilbúin að leggja sönginn á hilluna í bili en Sölvi fékk hana til að snúast hugur. 

Nú hefur hún tekið upp listamannsnafnið Raketa og ætlar að sameina sönginn og sjónlistina en hún leikstýrir nýútkomnu myndbandi við lagið Blue Velvet.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á myndböndum og að búa til mína eigin list. Þegar Sölvi hafði samband við mig síðasta sumar leist mér mjög vel á að prufa að syngja með honum þó að í sjálfu sér væri ég ekkert að spá í að gera meiri tónlist á þeim tíma,“ segir Rakel en lagið var tekið upp um jólin og myndbandið í páskafríinu.

Samstarfið gekk svo vel að Rakel ætlar að koma til Íslands í sumar í þeim tilgangi að búa til fleiri lög með Sölva og Halleluwah. „Það er dásamlegt að vinna með Sölva og við náðum vel saman. Þess vegna ætlum við að halda þessu áfram, taka upp fleiri lög og sjá hvert það leiðir okkur,“ segir Rakel sem er spennt að koma heim í sumar en hún á rúm tvö ár eftir af námi sínu í Brighton.

Hægt er að sjá myndbandið í spilaranum hér fyrir ofan. Einnig er hægt að hlusta á lagið Blue Velvet á Gogoyoko og Soundcloud.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.