Lífið

Vann dönsku tölvuleikjaverðlaunin

Gott á ferilskrána Embla Vigfúsdóttir er hæstánægð með dönsku tölvuleikjaverðlaunin sem hún hlaut á dögunum fyrir leikinn Cantrip.
Gott á ferilskrána Embla Vigfúsdóttir er hæstánægð með dönsku tölvuleikjaverðlaunin sem hún hlaut á dögunum fyrir leikinn Cantrip.
„Þetta er mjög gaman enda frábært að hafa þessi verðlaun á ferilskránni fyrir framtíðina,“ segir Embla Vigfúsdóttir, sem á dögunum hlaut dönsku tölvuleikjaverðlaunin, eða Spilprisen 2013, fyrir leikinn Cantrip.

Embla er í meistaranámi við Royal Danish Academy of Fine Arts, áður Danmarks Designskole, á svokallaðri leikjabraut. Leikurinn er afrakstur kúrs í skólanum, en Embla var listrænn stjórnandi leiksins, sem hún vann í félagi við nokkra samnemendur sína. „Kosningin fór fram á netinu og við fengum þau skilaboð að hann hefði þótt auðveldur í notkun og að allt hefði passað vel saman,“ segir Embla, sem auk þess að búa til tölvuleiki lærir að hanna borðspil og öpp fyrir farsíma og spjaldtölvur í náminu. „Ég er meira fyrir borðspilin og lokaverkefni mitt er einmitt eitt slíkt.“

Embla hefur verið búsett í Danmörku í tvö ár og líkar vel þar. Hugurinn leitar því ekki heim að námi loknu, en hún stefnir á útskrift næsta vetur. „Það er yndislegt hérna, betra veður og svona. Mig langar að starfa í geiranum hér, sem er stærri en á Íslandi. Sérstaklega hjálpar nálægðin við Þýskaland, en Þjóðverjar eru mikil leikjaþjóð,“ segir Embla, sem getur titlað sig leikjahönnuð að námi loknu.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.