Lífið

Fermingargjöfin kastaði merfolaldi

Sara McMahon skrifar
Urður Einarsdóttir fékk hryssu í fermingargjöf í fyrra. Öllum að óvörum kastaði merin í síðustu viku. Faðir hennar, Einar Örn Sigurdórsson, segir fjölskylduna ánægða með þennan óvænta glaðning.Fréttablaðið/pjetur
Urður Einarsdóttir fékk hryssu í fermingargjöf í fyrra. Öllum að óvörum kastaði merin í síðustu viku. Faðir hennar, Einar Örn Sigurdórsson, segir fjölskylduna ánægða með þennan óvænta glaðning.Fréttablaðið/pjetur

„Við fengum merina afhenta í júníbyrjun og þá grunaði engan að hún gæti verið fylfull. Öllum að óvörum kastaði hryssan svo litlu merfolaldi í síðustu viku,“ segir Einar Örn Sigurdórsson, starfsmaður hjá Íslensku auglýsingastofunni, um skemmtilegan atburð sem átti sér stað í síðustu viku. Þá varð Urður Einarsdóttir, dóttir hans og Brynhildar Davíðsdóttur, óvænt einni merinni ríkari þegar hryssa sem hún hafði fengið í fermingargjöf kastaði litlu merfolaldi.

Einar Örn segir að merin Sýn muni sinna móðurhlutverkinu í sumar og því verði lítið um útreiðartúra hjá dóttur hans. Folaldið er talið undan Gerpi frá Stóra-Sandfelli, en sá var með Sýn í geymslu síðasta sumar. „Pabbinn er úrvalsgæðingur, að mér skilst, sem búið er að selja út. Við fengum þarna topphest í kaupbæti,“ segir hann og hlær.

Urður, eigandi Sýnar, segir fréttirnar af folaldinu hafa komið sér skemmtilega á óvart. Hún heimsótti mæðgurnar um síðustu helgi og segir folaldið afskaplega krúttlegt, en það mun vera skjótt að lit, líkt og móðir þess, og braggast vel í sveitinni. „Það er lítið og mjúkt og algjör dúlla. Það er dálítið feimið og ekki jafn gæft og mamman,“ segir Urður sem mun dvelja sumarlangt hjá afa sínum og ömmu á bænum Arnbjargarlæk í Þverárhlíð.

Spurð hvort hún hafi þegar ákveðið nafn á folaldið segir Urður að nokkur komi til greina. „Ég hef verið að pæla í nafninu Þula, mér fannst það svo fallegt. Svo kemur nafnið Frostrós líka til greina því hún fæddist í sjö stiga frosti, sem er ekki æskilegt fyrir lítið folald,” segir Urður að lokum.

Alveg grunlaus um ástand hryssunnar
Davíð Aðalsteinsson, bóndi á Arnbjargarlæk og móðurafi Urðar, varð fyrstur var við folaldið. „Merin hafði verið á húsi hjá okkur í vetur en úti frá því fyrir páska. Dag einn er mér litið út um gluggann og sé þá að henni fylgir folald. Ég ályktaði strax að hún hlyti að eiga folaldið enda er hún ein á túninu,“ segir Davíð.

Hann viðurkennir að atburðurinn hafi komið honum í opna skjöldu, enda hafi hann verið grunlaus um ástand hryssunnar. „Það vissi enginn af því að merin hafði komist í fjörið í Reykjavík. Við erum þó öll mjög kát með þetta og þá sérstaklega fermingarbarnið sjálft.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.