Golf

Haldið í hefðirnar á Augusta

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Jack Nicklaus er í sérflokki þegar kemur að því að vinna Mastersmótið. Hér sést hann eftir sigur sinn árið 1972.
Jack Nicklaus er í sérflokki þegar kemur að því að vinna Mastersmótið. Hér sést hann eftir sigur sinn árið 1972. Nordicphotos/Getty
Fyrsta Masters-mótið fór fram á Augusta National-golfvellinum fyrir 79 árum og mótið hefur síðan alltaf verið eitt af stærstu mótum ársins.

Masters-mótið er eitt af risamótunum fjórum sem fram fara árlega. Ólíkt öðrum risamótum fer mótið ávallt fram á Augusta National-golfvellinum í Georgíu í Bandaríkjunum. Augusta National er meðal sögufrægustu golfvalla í heimi. Klúbburinn var stofnaður árið 1933 af Bobby Jones og Clifford Roberts en völlurinn var svo hannaður af Jones og Alister MacKenzie.

Masters-mótið var sett á laggirnar árið 1934 og fjölmargar hefðir fylgja mótinu. Sigurvegari mótsins hlýtur forláta grænan jakka sem hann fær að hafa í sínum fórum í ár og skilar honum svo aftur að ári liðnu og er jakkinn svo geymdur í klúbbhúsinu á Augusta National. Leikið hefur verið um græna jakkann frá árinu 1949.

Árið 1952 setti Ben Hogan á laggirnar skemmtilega hefð sem hefur haldist allar götur síðan. Þriðjudagskvöldi fyrir Masters-mótið koma allir fyrrverandi sigurvegarar mótsins saman í hófi sem kallast Kvöldverður meistaranna og er hefð fyrir því að sigurvegari síðasta árs velji hvað verður á matseðlinum. Fleiri hefðir hafa skapast því frá árinu 1963 hafa þekktar goðsagnir í golfinu slegið upphafshöggið í mótinu. Yfirleitt eru það fyrrverandi sigurvegarar í mótinu sem fá þann heiður. Á síðasta ári voru það þeir Arnold Palmer, Jack Nicklaus og Gary Player sem slógu upphafshöggin í mótinu. Þeir voru á sínum tíma kallaðir Hinir þrír stóru og börðust um alla titla sem voru í boði.

Allir kylfusveinar í hvítum samfestingi

Ein af þeim hefðum sem hafa haldist í sessi á Masters-mótinu er að allir kylfusveinar þurfa að vera í hvítum samfestingi. Jafnframt þurfa kylfusveinar að vera með græna derhúfu merkta Masters og í hvítum tennisskóm. Þessi hefð hefur haldist en þó með örlitlum breytingum. Fram til ársins 1982 gátu kylfingar ekki notað sína eigin kylfusveina heldur þurftu að nota þá kylfusveina sem voru á launskrá Augusta National-golfklúbbsins. Þeir kylfusveinar voru allir blökkumenn. Breyting varð á þessu fyrir um 30 árum en klúbburinn lét undan þrýstingi almennings sem þóttu þær reglur úreltar. Sá kylfusveinn sem starfar fyrir þann kylfing sem á titil að verja í mótinu fær samfesting sem er merktur nr. 1.

Nokkuð færri kylfingar leika í Masters-mótinu en í öðrum risamótum. Í ár fengu 94 kylfingar keppnisrétt. Norður-Írinn Darren Clarke þurfti að draga sig úr keppni vegna meiðsla og því eru aðeins 93 keppendur með í mótinu. Enginn biðlisti er fyrir mótið og því tekur enginn sæti Clarke í mótinu. Sigurvegari í Masters-mótinu fær keppnisrétt til lífstíðar og eru margir fyrrverandi meistarar sem láta sig ekki vanta á Augusta National ár eftir ár þótt árangurinn sé oft og tíðum ekkert sérstakur.

Mótin vinnast í Amen-horninu
Flestir íslenskir golfáhugamenn eru farnir að kannast vel við Augusta National-golfvöllinn, sem er af mörgum talinn einn besti golfvöllur í heimi. Völlurinn þykir gríðarlega fallegur fyrir augað og þeir útvöldu sem gefst tækifæri á að leika völlinn dásama hann. Völlurinn hefur þó tekið miklum breytingum.

Allar brautir vallarins hafa sitt heiti og draga nafn sitt af tré eða af runna sem er á hverri braut fyrir sig. Eitt frægasta kennileiti vallarins er Amen-hornið sem nær frá öðru höggi á 11. braut til upphafshöggsins á 13. braut. Það er á þessum kafla sem mörg Masters-mót vinnast eða tapast.

Heitið er dregið af umfjöllun Herbert Warren í Sports Illustrated frá árinu 1958 en með heitinu vildi hann leggja áherslu á að þetta væri sá hluti vallarins þar sem hlutirnir gerðust. 11. brautin er jafnan talin vera meðal erfiðustu brauta vallarins og svo er 12. brautin stutt par-3 hola þar sem þó er auðvelt að tapa höggum líkt og sagan hefur sýnt. Talsverð sóknarfæri eru hins vegar á 13. braut sem er par-5 hola þar sem upphafshöggið skiptir höfuðmáli ætli kylfingar sér að eiga von um að slá inn á flöt í tveimur höggum.

Jack Nicklaus hefur oftast staðið uppi sem sigurvegari á Masters-mótinu en hann hefur alls sex sinnum klæðst græna jakkanum. Arnold Palmer og Tiger Woods hafa unnið mótið fjórum sinnum. Bandaríkjamenn hafa verið sigursælir í mótinu og fyrsti sigur evrópsks kylfings kom ekki fyrr en árið 1980 þegar Seve Ballesteros sigraði. 16 kylfingar hafa unnið mótið oftar en tvisvar sinnum.

Spennandi verður að sjá hvort ný met verða sett á Masters-mótinu sem hófst í gær. Mótið fer fram í 77. sinn.


Tengdar fréttir

Búist við gífurlega hröðum flötum

Þorsteinn Hallgrímsson og myndatökumaðurinn Friðrik Þór Halldórsson hafa undanfarna daga dvalið í Georgíu og fylgst með aðdraganda Masters-mótsins á Augusta National-vellinum.

Tiger eða Dustin vinna Masters

Ólafur Björn Loftsson telur að Tiger Woods fari með sigur í fimmta skipti á Masters. Fjölmiðlamaðurinn Heimir Karlsson telur hins vegar að Dustin Johnson muni koma, sjá og sigra.

Klæðist heilsuhraustur Tiger græna jakkanum í fimmta sinn?

Tiger Woods er sá kylfingur sem flestir veðja á í aðdraganda Masters-mótsins í ár. Hann er á ný í efsta sæti heimslistans í golfi eftir að hafa unnið þrjú mót í PGA-mótaröðinni í ár og er í góðu formi fyrir fyrsta risamót ársins.

14 ára undrabarn leikur á Masters

Fjórtán ára gamall drengur frá Kína mun skrá nafn sitt í metabækurnar á Masters-mótinu í ár þegar hann verður yngsti kylfingurinn í sögu mótsins til að taka þátt.

Notar "brautartré á sterum“ sem dræver

Phil Mickelson mun ekki nota hefðbundinn dræver á Masters í ár heldur "brautartré á sterum“ eins og hann orðaði það sjálfur á blaðamannafundi fyrir mótið.

Bauð upp á kjúkling

Ein af hefðum Masters-mótsins er kvöldverður meistaranna en þar koma saman fyrrverandi sigurvegarar í mótinu og snæða saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×