Umfjöllun og viðtöl: HK - Selfoss 29-34 | Meistararnir gáfu í þegar þess þurfti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur skoraði ellefu mörk í Kórnum.
Haukur skoraði ellefu mörk í Kórnum. vísir/vilhelm

Íslandsmeistarar Selfoss unnu fimm marka sigur á botnliði HK, 29-34, þegar liðin mættust í Kórnum í 15. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

Einar Sverrisson sneri aftur í lið Selfoss eftir erfið meiðsli og lék sinn fyrsta leik í tæpt ár. Hann byrjaði leikinn af fítonskrafti og skoraði fjögur af fyrstu fimm mörk Selfyssinga sem komust í 2-5.

Einar fékk svo brottvísun og Selfyssingar gáfu mikið eftir í kjölfarið. HK náði tveimur 4-1 köflum og komust yfir, 10-9, þegar Pálmi Fannar Sigurðsson skoraði sitt eina mark í leiknum.

Þá tók Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, leikhlé og hans menn tóku sig taki í kjölfarið. Þeir voru miklu sterkari síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks, skoruðu fjögur síðustu mörk hans og leiddu í hálfleik, 13-17.

Munurinn var full mikill miðað við gang leiksins en HK-ingar gátu sjálfum sér um kennt. Þeir voru glórulausir þegar þeir voru manni fleiri (sex á móti fimm) og tóku margar furðulegar ákvarðanir.

Selfyssingar náðu aldrei að slíta sig frá HK-ingum fyrr en undir lokin. HK lék með sjö í sókn nánast allan seinni hálfleikinn og það gaf góða raun.

Varnarleikurinn hélt hins vegar aldrei nógu vel og HK-ingar réðu ekkert við samvinnu Hauks Þrastarsonar og Atla Ævars Ingólfssonar.

Símon Michael Guðjónsson minnkaði muninn í tvö mörk, 26-28, en Selfoss svaraði með fimm mörkum í röð og kláraði leikinn. Lokatölur 29-34, Selfyssingum í vil.

Af hverju vann Selfoss?

Selfyssingar gerðu það til þurfti í leiknum, stigu á bensíngjöfina á réttum augnablikum og unnu á endanum öruggan sigur.

Varnarleikur Selfoss var misjafn og markvarslan lítil en þeir áttu ekki í vandræðum með að skora og skotnýtingin var frábær (77%).

Hverjir stóðu upp úr?

Einar var frábær í endurkomuleiknum og skoraði sjö mörk, líkt og Atli Ævar sem fór mikinn í seinni hálfleik. Haukur var yfirburðarmaður á vellinum, skoraði ellefu mörk og átti á annan tug stoðsendinga.

Símon átti frábæran leik í vinstra horninu hjá HK og skoraði sex mörk líkt og Pétur Árni Hauksson.

Hvað gekk illa?

Það var á köflum pínlegt að fylgjast með tilburðum HK-inga þegar þeir voru manni fleiri (sex á móti fimm), þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir skoruðu varla mark í þeirri stöðu og töpuðu boltanum oftast klaufalega.

Þá var varnarleikur heimamanna ekki nógu góður og markverðirnir áttu erfitt uppdráttar.

Hvað gerist næst?

Á laugardaginn fara HK-ingar til Akureyrar og mæta þar KA-mönnum sem steinlágu fyrir ÍR-ingum í kvöld, 34-22.

Selfyssingar taka hins vegar á móti Eyjamönnum í Hleðsluhöllinni.

Elías var ekki ánægður með varnarleik HK í kvöld.vísir/bára

Elías Már: Sjö á sex er gott vopn

Elías Már Halldórsson, þjálfari HK, segir að sínir menn hafi farið illa að ráði sínu undir lok fyrri hálfleik gegn Selfossi. Gestirnir skoruðu síðustu fjögur mörk fyrri hálfleiks og fóru með gott forskot til búningsherbergja.

„Þetta forskot myndaðist þegar við fengum tvær brottvísanir. Við vorum klaufar. Ég var mjög svekktur. Eitt til tvö mörk hefði verið eðlilegur munur í hálfleik,“ sagði Elías eftir leik.

HK-ingar nýttu það afskaplega illa þegar þeir voru manni færri í leiknum. Elías sagði samt að vörnin hefði orðið HK að falli í kvöld.

„Ég þarf að skoða yfirtöluna betur en það er ekki það sem situr í mér. Varnarleikurinn og markvarslan fór með þetta í dag. Við fengum á okkur 34 mörk sem er alltof mikið,“ sagði Elías.

„Við áttum í erfiðleikum með þá líkamlega. Haukur [Þrastarson] og Einar [Sverrisson] eru sterkir maður gegn manni og Atli [Ævar Ingólfsson] öflugur á línunni. Við náðum ekki að berjast við þá í vörninni og þess vegna fengum við litla markvörslu. Við skoruðum 29 mörk og það á að duga til að vinna handboltaleik.“

HK notaði sjö sóknarmenn í seinni hálfleik með góðum árangri. Það herbragð hefur gefist vel í nokkrum leikjum liðsins í vetur.

„Við erum búnir að æfa þetta vel og erum öruggari í þessu en við vorum. Þetta er gott vopn en það fer mikil orka í þetta. Við þurfum að skipta mönnum út og þetta er áhætta. En við munum klárlega nota þetta meira,“ sagði Elías að lokum.

Einar kom sterkur inn í lið Selfoss eftir langa fjarveru vegna meiðsla.vísir/eyþór

Einar: Finn ekkert fyrir meiðslunum

Einar Sverrisson lék í kvöld sinn fyrsta leik fyrir Selfoss síðan hann sleit krossband í hné í mars á síðasta ári. Einar skoraði sjö mörk í sigrinum á HK.

„Þetta var pínu skrítið. Þetta var eins og maður væri að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik. En þetta var fínt og skemmtilegra en mig minnti,“ sagði Einar eftir leik.

Skyttan öfluga byrjaði leikinn af miklum krafti og skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkum Selfyssinga í leiknum.

„Ég var heitur í byrjun og það var gott fyrir mig að komast strax í gang. Við náðum aldrei að slíta okkur frá þeim en mér fannst við alltaf vera með yfirhöndina. Það vantaði aðeins meiri aukakraft í okkur. En mér fannst þetta aldrei í hættu,“ sagði Einar.

Hann segist vera í góðu ásigkomulagi og finni ekkert fyrir meiðslunum sem héldu honum utan vallar í tæpt ár.

„Staðan er góð og ég finn ekkert fyrir þessu. Vonandi heldur það áfram og ég verði heill og í toppstandi,“ sagði Einar.

Vegna meiðslanna missti hann af úrslitakeppninni í fyrra þar sem Selfoss varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins.

„Það var súrsætt fyrir mig. Þetta var gaman fyrir félagið og mig að taka þátt í því með þeim en mann langaði mikið að vera inni á vellinum þá. Það var klárlega hvatning í endurhæfingunni,“ sagði Einar að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.