Lífið

Átta klukkustundir á dag í kajak

Guðni Páll Viktorsson mun róa í kringum landið á kajak í sumar. Ferðalagið tekur tvo mánuði og er til styrktar Samhjálp.
Guðni Páll Viktorsson mun róa í kringum landið á kajak í sumar. Ferðalagið tekur tvo mánuði og er til styrktar Samhjálp.
„Ætli þetta hafi ekki verið draumur og ævintýraþrá sem runnu saman og úr varð þetta verkefni,“ segir Guðni Páll Viktorsson, sem ætlar að róa einn síns liðs á kajak í kringum landið í sumar til styrktar Samhjálp. Guðni Páll leggur af stað frá Höfn þann 1. maí og mun ferðalagið taka um tvo mánuði.

Guðni Páll hefur stundað kajakróður af miklum krafti í nokkur ár og er meðal annars með leiðsögumannaréttindi í íþróttinni frá Bretlandi. Þar fyrir utan starfar hann hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri.

Guðni Páll mun róa í um átta klukkustundir dag hvern á meðan á ferðalaginu stendur. Þegar hann er spurður nánar út í nestis- og hvíldarstopp segir hann: „Nestispásur eru raunhæfar, en pissustoppin eru aðeins flóknari. Ég verð aldrei rosalega langt frá landi og gæti því farið í land til að leysa þessi mál, annars verður flaskan bara að duga.“

Guðni Páll viðurkennir að án stuðnings frá sínum nánustu hefði ferðalagið reynst ómögulegt. „Þetta eru tveir mánuðir af einangrun og ég gæti þetta ekki ef ég nyti ekki stuðnings kærustu minnar, fjölskyldu og vinnuveitanda.“

Allar nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast á heimasíðu þess www.aroundiceland2013.com






Fleiri fréttir

Sjá meira


×