Lífið

15 ára og raka af sér hárið í góðgerðaviku

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Vinkonurnar Elísabet Huld Þorbergsdóttir og Elín María Árnadóttir láta raka af sér hárið fyrir framan alla í skólanum á góðgerðadegi skólans 17. apríl næstkomandi.
Vinkonurnar Elísabet Huld Þorbergsdóttir og Elín María Árnadóttir láta raka af sér hárið fyrir framan alla í skólanum á góðgerðadegi skólans 17. apríl næstkomandi. Fréttablaðið/Stefán
„Við vorum fyrst að grínast með þetta en svo fannst okkur þetta bara svo frábær hugmynd,“ segir Elísabet Huld Þorbergsdóttir, nemi í Hagaskóla, sem ásamt vinkonu sinni, Elínu Maríu Árnadóttur ætlar að raka af sér hárið á góðgerðadegi skólans.

Góðgerðadagur Hagaskóla er árlegur en í ár eru það Amnesty International og hópurinn Ungir aðstandendur hjá Ljósinu, stuðningshópur fyrir börn og unglinga sem eiga foreldra sem hafa greinst með krabbamein, sem njóta góðs af því sem safnast. Ljósið stendur einmitt þeim vinkonunum nærri en Elísabet missti föður sinn fyrir einu og hálfu ári og þekkir því vel til starfssemi Ljóssins. „Við bróðir minn fengum mikla hjálp og stuðning þaðan þegar pabbi dó. Það var þess vegna sem mig langaði að gera eitthvað alveg sérstakt þessa þemavikuna til að safna sem mestum peningum,“ segir Elísabet og bætir við að hún geti hugsað sér að gefa hárið sem fær að fjúka til hárkollugerðar í framhaldinu.

Elísabet og Elín María ætla að gera athöfn úr því þegar þær raka af sér hárið en það fær að fjúka uppi á sviði fyrir framan alla í skólanum á góðgerðadeginum, þann 17. apríl næstkomandi. Móðir vinkonu þeirra er hárgreiðslukona og ætlar að munda rakvélina. „Ég hef verið með sítt hár síðan ég man eftir mér en það er svo gott að gera góðverk að okkur líður bara vel með þessa ákvörðun. Ég á samt alveg eins von á því að við förum að hágráta þarna upp á sviði fyrir framan allan skólann á meðan á rakstrinum stendur en við verðum að harka af okkur.“

Elísabet og Elín María hvetja sem flesta til að leggja málefninu lið og fyrir áhugasama er reikningsnúmer: 0137-05-060713 og kennitala: 210597-2399.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.