Innlent

Fiskikóngur vonar að hafmeyjan fái frið

Freyr Bjarnason skrifar
Mynd af ókláraðri hafmeyjunni á vegg Fiskbúðarinnar við Sogaveg.
Mynd af ókláraðri hafmeyjunni á vegg Fiskbúðarinnar við Sogaveg.
Kristján Berg, sem rekur fiskbúðina Fiskikónginn við Sogaveg, hefur látið mála risastóra mynd af hafmeyju á vegg búðarinnar. Hann var áður með stórt auglýsingaskilti á veggnum en Reykjavíkurborg lét hann fjarlægja það.

„Þegar ég byrjaði með fiskbúðina var húsið alltaf útkrotað eða spreyjað, sem er skemmdarverk í mínum huga,“ segir Kristján. Fyrst kom maður frá borginni og málaði yfir krotið en síðar meir var Kristján fenginn til að mála sjálfur yfir það. Hann gafst upp á því á endanum og ákvað að setja auglýsingaskilti upp í staðinn merkt Fiskikónginum, en var gert að taka það niður vegna þess að það þótti of stórt. Þá ákvað hann að ráða til sín veggjakrotarann og listamanninn Þorstein Davíðsson og fá hann til að mála fyrir sig hafmeyjuna. „Ég veit ekki hvort borgaryfirvöld munu æsa sig yfir þessu, ég vona ekki,“ segir Kristján. „Ég er ekki með skilti á húsinu. Þetta er málning og það getur enginn bannað mér að mála húsið mitt. Ég vona að borgin fari ekki að fetta fingur út í þetta.“

Myndin sést vel frá Miklubrautinni og mun því blasa vel við borgarbúum. Aðspurður segist Kristján ánægður með hafmeyjuna, sem verður tilbúin í dag. „Það er ótrúlegt að sjá hvernig hann [Þorsteinn] gerir þetta. Þetta er ekkert smá stórt og ég er montinn yfir því að hafa þetta þarna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×