Innlent

Ekki í ábyrgð fyrir öllu saman

Stígur Helgason skrifar
Kristján Arason
Kristján Arason
Kristján Arason, fyrrverandi yfirmaður einkabankaþjónustu Kaupþings, var ekki í persónulegum ábyrgðum fyrir öllum 1,7 milljörðunum sem hann fékk að láni til hlutabréfakaupa í bankanum fyrir hrun.

Þótt skuldin við bankann hafi staðið í rúmum tveimur milljörðum í desember 2010 er það því ekki öll sú upphæð sem slitastjórn bankans hefur stefnt honum til að greiða, ólíkt því sem sagði í blaðinu í gær.

Guðni Ásþór Haraldsson, lögmaður slitastjórnarinnar, staðfesti við blaðið að málið snerist um skuldina sem stofnað var til með lánveitingunni til hlutabréfakaupanna, en upphæðin var fengin úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Guðni vill ekki upplýsa hversu há krafan í stefnu slitastjórnarinnar er. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins var um nokkur lán að ræða og var Kristján í mismikilli persónulegri ábyrgð fyrir hverju þeirra.

Fram kom í Fréttablaðinu í gær að allur Héraðsdómur Reykjaness hefði lýst sig vanhæfan í málinu vegna mægða dómstjórans við Kristján. Dómari úr Héraðsdómi Reykjavíkur var fenginn í málið í staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×