Innlent

Kjörnefndin hefur fengið álit lögmanns

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Elsa B. friðfinnsdóttir
Elsa B. friðfinnsdóttir
Einn frambjóðenda til formanns í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur kært kosninguna sem fram fór í mars. Niðurstaðan var kynnt 14. síðasta mánaðar, en þá kom í ljós að Ólafur G. Skúlason hjúkrunarfræðingur hafði verið hlutskarpastur sex frambjóðenda. Einu atkvæði munaði á honum og næsta manni.

Elsa Björk Friðfinnsdóttir, fráfarandi formaður félagsins, segir að kjörnefnd félagsins fjalli um kæruna sem kom fram fimmtudaginn 21. mars. Á þriðjudeginum þar á undan hafði stjórn félagsins þegar óskað eftir áliti lögmanns á lögmæti kosningarinnar vegna meintra ágalla á skriflegum hluta hennar. Kosningin var bæði skrifleg og rafræn.

Álit lögmannsins liggur fyrir en stjórn félagsins ákvað að gera það ekki opinbert fyrr en kjörnefnd hefði lokið skoðun sinni. Hún hefur þó fengið álitið til að styðjast við. Elsa segist búast við að kjörnefnd kveði í þessari viku upp úrskurð um lögmæti formannskosningarinnar.

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fjallaði um málið á fundi sínum í gær. „Auðvitað er ekki gott þegar svona aðstæður koma upp og verður að vera ljóst að formaður í svona félagi sé rétt kjörinn, sér í lagi þegar munar bara einu atkvæði," segir Elsa.

Ólafur G. Skúlason segist ekkert hafa heyrt, fremur en aðrir frambjóðendur, um hvar málið standi eftir að ákveðið var að kalla eftir lögmannsáliti og kæra kom fram. Hann segir nokkra óánægju meðal hjúkrunarfræðinga vegna þess hve langan tíma þessi skoðun hafi tekið. Formannsskipti í félaginu eru fyrirhuguð í byrjun maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×