Innlent

8.730 breyttu um nafn í fyrra

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Alls voru skráðar 8.730 nafnabreytingar hjá þjóðskrá Íslands á síðasta ári. Þetta er sögulegt met í nafnabreytingum innan kerfisins en til samanburðar má nefna að á fimm ára tímabilinu á undan, frá árinu 2007 til 2011, voru 13.213 breytingar skráðar á nöfnum Íslendinga.

Algengustu breytingar á nöfnum eru á kenninöfnum, sem oftar eru nefnd föðurnöfn. Þá er það að færast í vöxt að Íslendingar vilji kenna sig við bæði móður og föður, en það gengur misvel að fá slíkt í gegn þar sem leyfilegur fjöldi stafa í nafni er einungis 34 samkvæmt kerfi þjóðskrár. Því þurfa sumir að sætta sig við að kenna sig við upphafsstaf annars foreldris á undan kenninafni sínu, sökum stafafjölda.

Samkvæmt reglum þjóðskrár má breyta nafninu sínu aðeins einu sinni nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Nafnbreytingar eru í flestum tilvikum gjaldskyldar, til dæmis ef verið er að fella niður eða taka upp eiginnafn, taka á upp eiginnafn foreldris í eignarfalli sem millinafn eða kenna feðrað barn við stjúpforeldri. Gjald vegna nafnabreytinga er 6.600 krónur.

Hafi verið tekið gjald vegna allra nafnabreytinganna árið 2012 þýðir það að Íslendingar greiddu tæpar 58 milljónir króna fyrir að láta breyta nöfnum sínum það ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×