Innlent

Skorradalurinn er hættuleg púðurtunna

Birgir Þór Harðarson skrifar
Mikil hætta skapaðist þegar eldurinn breiddi úr sér. mynd/örn Arnarson
Mikil hætta skapaðist þegar eldurinn breiddi úr sér. mynd/örn Arnarson
Engar sértækar viðbragðsáætlanir eru til fyrir þéttar sumarhúsabyggðir á Íslandi nema ef slík áætlun hefur verið gerð að frumkvæði svæðisbundinna yfirvalda. Viðbragðsáætlun vegna gróðurelda í Skorradal verður kynnt í vikunni.

Hætta skapaðist þegar neisti frá flugeldi varð að miklum sinueldi í Skorradal á laugardagskvöldið. Algert logn var í Skorradal sem gerði slökkvistarf auðveldara. „Þarna hjálpaðist allt að. Það var alveg dauðalogn á meðan við börðumst við eldinn,“ segir Bjarni Kristinn Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð. Einnig hafi skipt miklu að fólk úr nálægum húsum hjálpaði til við slökkvistarfið.

„Það eru ekki til heildstæðar séráætlanir en það eru til almennar viðbragðsáætlanir og eftir þeim er farið í þessum tilvikum,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.

Ekki var stuðst við viðbragðsáætlunina í Skorradal um helgina en í henni eru vandamál varðandi vatnstöku úr Skorradalsvatni nefnd, auk þess sem slóðar eru sagðir illfærir þungum slökkviliðsbílum.

„Ástandið getur orðið mjög hættulegt vegna veðurfarsbreytinga,“ segir Bjarni og segir Skorradal vera eins og hættulega púðurtunnu í miklum þurrkum. Sökum þéttleika sumarhúsabyggðarinnar getur eignatjón orðið verulegt ef eldur læsir sig í gróðurinn á svæðinu. Þá er hugsanlegt að fólk verði innlyksa vegna gróðurelda á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×