Innlent

Veggjakrotsmálum fækkað um nær 90%

Brjánn Jónasson skrifar
Í Hjartagarðinum við Laugaveg hafa veggirnir verið skreyttir af listamönnum með leyfi eigenda.
Í Hjartagarðinum við Laugaveg hafa veggirnir verið skreyttir af listamönnum með leyfi eigenda. Fréttablaðið/pjetur
Veggjakrotsmálum sem tilkynnt hafa verið til lögreglu höfuðborgarsvæðisins hefur fækkað um nærri 90 prósent á sex árum. Alls voru 46 mál tilkynnt til lögreglu á síðasta ári, en 395 árið 2007.

Tölurnar gefa skýra vísbendingu um að dregið hafi úr veggjakroti, þótt tölur lögreglunnar segi ekki endilega alla söguna. Veggjakrotsmál eru ekki alltaf tilkynnt til lögreglu, og vegna samdráttar hefur frumkvæðisvinna lögreglumanna dregist saman.

Ýmsar skýringar gætu verið á fækkun veggjakrotsmála, segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Ein skýringin gæti verið mikil verðhækkun á úðabrúsum sem eru notaðir við veggjakrotið.

„Það dró verulega úr þessu eftir hrunið, en nú finnst okkur vera að bæta aftur í,“ segir Þorsteinn Pálmarsson, framkvæmdastjóri Allt-af sem sérhæfir sig meðal annars í þrifum á veggjakroti.

Hann segir erfitt að segja hvað valdi því að nú sé krotið aftur að aukast, en það blasi við þegar ekið sé um borgina. Hann segist merkja ákveðna breytingu frá því sem áður var, nú sé meira um einfalt krot en listrænar myndir.

„Ég held að þetta sé rétt mat og endurspeglar þá sátt sem hefur náðst,“ segir Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar. Hann segir tölurnar sýna að sú stefna borgarinnar á árunum 2007 og 2008 að líða alls ekkert veggjakrot hafi ekki skilað árangri. Það sem hafi skilað árangri sé að bjóða upp á góða staði þar sem þeir sem leggja stund á þessa listgrein fái að stunda sína list. Dæmi um það sé Hjartagarðurinn við Laugaveg.

„Það þarf að veita þessari listgrein umhverfi og stuðning eins og öðrum. Hún þarf að eiga sinn vettvang,“ segir Jakob. Hann segir að nú þegar til standi að fara í uppbyggingu á Hjartagarðsreitnum þurfi að gæta þess að þeir sem fáist við veggjalist fái annan og jafn góðan vettvang missi þeir aðstöðuna í garðinum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×