Skoðun

Sporin hræða

Björn Ólafur Hallgrímsson skrifar
Samkvæmt skoðanakönnunum er Framsóknarflokkurinn nú í mikilli sókn í aðdraganda kosninganna í vor. Þeim sem hér stýrir penna finnst það mjög váleg tíðindi. Virðist svo sem mestu ráði um fylgisaukninguna nokkuð dugnaðarleg barátta nokkurra forvígismanna flokksins í svonefndu Icesave-máli en ekki síður innantóm fyrirheit um ævintýralegar en óraunhæfar lausnir á skuldavanda heimilanna, loforð, sem flokksmenn eru nú þegar farnir að bera að nokkru til baka, eftir að sú sviðsmynd kom út úr skoðanakönnunum, að Framsóknarflokkurinn kynni að verða leiðandi afl í næstu ríkisstjórn og þurfa að standa við stóru orðin.

Ástæða er til að ætla, að fylgisaukningin eigi sér fyrst og fremst rætur hjá yngri kynslóð kjósenda, hjá fólki, sem einungis þekkir til nýjustu gjörða og útspila þessa gamla flokks, sem margir telja mjög spilltan enn, þótt hann hafi fengið ný andlit.

Þeir sem eldri eru þekkja vinnubrögð og verk flokksins fyrr á tímum og dæma hann að verðleikum samkvæmt því með því að kjósa hann aldrei aftur, a.m.k. ekki fyrr en öllum grun um óheilindi hefur verið eytt, flokkurinn dauðhreinsaður af áráttu til einkavinavæðingar og úr vondum verkum hans bætt svo sem unnt er.

Fráleit málefni

Og hver eru þau spor flokksins, sem hræða? Um er að tefla ýmis fráleit málefni, sem flokkurinn hefur hannað og keyrt fram, oft í þágu fárra og oftast í náinni samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Nefna má af þeim mörgu málum, sem í fjölmiðla hafa ratað, einkavinavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka, kvótamálið, yfirlýsingu um þátttöku Íslands í Íraksstríðinu, Kögunarmálið, virka þátttöku í hrunsstjórnun efnahagsmála síðustu áratuga, 90% húsnæðislánin, sem allt settu hér á hliðina, stöðvun stjórnlagabreytinga á Alþingi í átt til aukins lýðræðis og mannréttinda og síðast en ekki síst hið gríðarlega umhverfisslys í Lagarfljóti vegna hinnar óarðbæru Kárahnjúkavirkjunar.

Öll þessi óheillaverk og miklu fleiri voru að meira eða minna leyti í boði Framsóknarflokksins. Hafa væntanlegir kjósendur virkilega gleymt þeim?

Og er þetta þá flokkur með almannaheill að leiðarljósi, sem þú getur getur stutt með atkvæði þínu, kjósandi góður?




Skoðun

Sjá meira


×