Skoðun

Mikilvæg ákvörðun

Andrés Pétursson skrifar
Nýleg skoðanakönnun Capacent Gallup sem sýnir að 61% landsmanna vill klára aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið hefur vakið mikla athygli. Þetta vekur hins vegar spurningar varðandi stuðning við þá stjórnmálaflokka sem vilja slíta aðildarviðræðunum.

Bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn hafa samþykkt á landsfundum sínum að hætta beri þessum viðræðum. Formaður Nei-samtakanna, Ásmundur Einar Daðason, er þingmaður Framsóknarflokksins og Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er varaformaður sömu samtaka. Fleiri áhrifamenn í þessum báðum flokkum eins og Guðni Ágústsson, Pétur H. Blöndal, Frosti Sigurjónsson og Styrmir Gunnarsson eiga sæti í stjórn Nei-sinna og hafa barist með oddi og egg gegn aðildarviðræðunum.

Sjálfstæðisflokkurinn tók þetta síðan skrefinu lengra og samþykkti að loka ætti Evrópustofu. Að vísu hafa bæði formaður og varaformaður flokksins lýst því yfir að sú samþykkt hafi verið óheppileg.

Ef landsmönnum er alvara að við eigum að klára aðildarviðræðurnar þá hljóta menn að setja spurningarmerki við stuðning við þessa stjórnmálaflokka. Finnst fólki það til dæmis líklegt að hugsanleg stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks myndi veita aðildarviðræðum öfluga pólitíska forystu! Ég leyfi mér að efast um það jafnvel þótt þjóðin væri búin að samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu að halda ferlinu áfram.

Ég skora því á þá landsmenn sem vilja halda viðræðunum áfram að hugsa sig vandlega um þegar þeir gera upp hug sinn í kjörklefanum í komandi alþingiskosningum.




Skoðun

Sjá meira


×