Innlent

Stór hópur lækna dró uppsögn sína til baka

Almennir læknar á LSH töldu álagið vera of mikið til að starfa áfram á spítalanum.Fréttablaðið/Vilhelm
Almennir læknar á LSH töldu álagið vera of mikið til að starfa áfram á spítalanum.Fréttablaðið/Vilhelm
Megnið af þeim tuttugu almennu læknum á Landspítalanum (LSH) sem sögðu upp störfum í febrúar, hafa nú hætt við að hætta.

Að sögn Odds Gunnarssonar, staðgengils mannauðsstjóra LSH, náðist samkomulag við langflesta læknana í vikunni.

„Þegar rætt var við þá kom í ljós að óánægjan var af margvíslegum toga, en megnið varðaði álag og vinnuaðstæður,“ segir hann. „En það fór alveg niður í að vera með aðgang að síma og tölvu.“

Oddur segir ákveðið ferli nú farið í gang til að lagfæra málin og stjórnendur spítalans muni gera grein fyrir ákveðnum úrbótum með þátttöku fulltrúa læknanna sem fylgi því eftir.

„Álagið er býsna mikið og læknar hafa kvartað undan því að þeir séu látnir axla ábyrgð of fljótt miðað við getu þeirra,“ segir hann. „Einn þáttur í kröfunum var stuðningur reyndra sérfræðinga við störf þeirra.“

Oddur getur ekki fullyrt að allir þeir tuttugu læknar sem sögðu upp störfum fyrir um mánuði síðan hafi dregið uppsögn sína til baka, en að minnsta kosti sé ekki lengur um að ræða hóp sem gæti valdið röskun á starfsemi spítalans. Uppsagnirnar áttu að taka gildi þann 1. apríl næstkomandi.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×