Skoðun

Nú er lag Steingrímur, látum verkin tala

Ásmundur Skeggjason skrifar
Allflestir eru sammála um að lífskjör batna ekki á Íslandi nema hagvöxtur aukist. Einnig um að auka verði fjárfestingu í útflutningsgreinum og ráðast í mannaflsfrek verkefni.

Nú er lag fyrir Steingrím J. Sigfússon að láta verkin tala og stórauka veiðiheimildir til færaveiða á makríl sem eru bæði vistvænar og mannaflsfrekar.

Makríll gengur nú í auknum mæli upp á mið smábátasjómanna. Tæknin til veiða og meðhöndlunar hráefnisins hefur tekist með afburðum og er nú svo komið að veiðar árið 2012 urðu að arðbærum atvinnuveiðum. Aukin gæði hráefnis og hærra verð fæst fyrir færaveidda fiskinn. Það er því ljóst að bæði smábátasjómenn og vinnsluaðilar hafa náð góðum tökum á meðhöndlun hráefnisins og að veiðigeta bátanna hefur stóraukist.

Fyrirséð er að þær heimildir sem hafa verið skammtaðar til smábáta verða takmarkandi fyrir framþróun veiða árið 2013 vegna gríðarlegs áhuga fyrir veiðunum. Hvet ég því ráðherra til að auka rausnarlega við fyrirhugaða úthlutun til handfæraveiða á komandi ári og úthluta að minnsta kosti 20.000 tonnum í handfærapottinn. Flestir eru sammála um að öll efnisleg rök eru fyrir því að stórauka skuli hlut handfæraveiða við landið, hvort sem er af efnahagslegum eða samfélagslegum ástæðum.




Skoðun

Sjá meira


×