Innlent

Réðst á skólafélaga og fékk þá loks hjálp

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Kennari segir hegðunarvanda hafa aukist undanfarin ár en á sama tíma hafi fjármagn til skólanna verið skert. Myndin er úr safni og tengist ekki efni fréttarinnar beint.
Kennari segir hegðunarvanda hafa aukist undanfarin ár en á sama tíma hafi fjármagn til skólanna verið skert. Myndin er úr safni og tengist ekki efni fréttarinnar beint.
„Þetta er ofboðslega ljúfur og yndislegur drengur en skólakerfið hentar honum ekki eins og það er," segir Kristín Ósk Hlynsdóttir, móðir Kristófers, ellefu ára drengs sem er greindur með ofvirkni og athyglisbrest, mótþróaþrjóskuröskun og kvíðaröskun.

Um fjórðungur allra grunnskólanema þarf á sérkennslu að halda. Í könnun Reykjavíkurborgar frá 2010 um sérkennslu í grunnskólum Reykjavíkur kom fram að alls fengu 26% nemenda í grunnskólum Reykjavíkur sérkennslu vorið 2010 en hlutfallið var 21% árið 2005. Um 74% af þessum nemendum fengu sérkennslu utan bekkjar.

Hluti þeirra sem þurfa á sérúrræðum að halda eru nemendur sem eiga við alvarlega hegðunar- og tilfinningaörðugleika að stríða. Guðbjörg Ragnarsdóttir, varaformaður Félags grunnskólakennara, segir hegðunarvanda nemenda hafa aukist á undanförnum árum. Á sama tíma hafi fjármagn til skólanna verið skert.

Kristín segir skólakerfið ekki vera í stakk búið til að sinna nemendum með mikinn hegðunarvanda.

„Fyrstu skólaárin hans var alltaf verið að reyna að troða honum inn í ákveðið box sem allir hinir nemendurnir pössuðu inn í. Hann þarf stuðning þar sem unnið er með hans persónulegu þarfir. Það er búið að prófa háa lyfjaskammta en það virkar ekki neitt. Ég bara týndi barninu mínu."

Oft hafa komið upp árekstrar á milli Kristófers og annarra barna en Kristín segir að kerfið hafi ekki tekið almennilega á vandanum fyrr en hann beitti skólafélaga alvarlegu ofbeldi í frímínútum síðastliðin jól og var fyrir vikið vísað tímabundið úr skóla.

„Það þarf eitthvað alvarlegt að gerast til þess að kerfið vakni og bregðist við. Eftir það atvik komst fyrst skriður á okkar mál. Þá komumst við í samband við BUGL. Í kjölfarið var ákveðið að hann færi í Brúarskóla, sem er skóli fyrir krakka með alvarlegan geðrænan og tilfinningalegan vanda. Þar verður sérstaklega unnið með reiðistjórnun. Eins hefur verið mikill stuðningur að geta leitað til Sjónarhóls."

Kristín segist kvíða framtíðinni og óttast hvað taki við þegar Kristófer fer aftur í almennan skóla en Brúarskóli er tímabundið úrræði. „Maður veit ekkert hvað tekur við."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×