Innlent

Vörur verði merktar Inspired by Iceland

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Ísland verður æ vinsælli staður fyrir vetrarferðamennsku. Ferðamenn kafa á Þingvöllum í desember. Fréttablaðið/Stefán
Ísland verður æ vinsælli staður fyrir vetrarferðamennsku. Ferðamenn kafa á Þingvöllum í desember. Fréttablaðið/Stefán
Ísland er með allt of mörg vörumerki í gangi og sýnir erlendum ferðamönnum of mörg andlit í markaðssetningu á sér. Þetta segir breska ráðgjafafyrirtækið PKF sem leggur til að herferðir varðandi ímynd Íslands verði sameinaðar í Inspired by Iceland. Jafnvel verði það notað sem allsherjarnafn yfir íslenskar vörur og þjónustu.

Fyrirtækið hefur unnið skýrslu fyrir Íslandsstofu sem kynnt verður í dag. Þar kemur fram að Ísland eigi fyrst og fremst að leggja áherslu á að vera sjálfbær áfangastaður. Þangað sé hægt að fara allt árið um kring og njóta bæði náttúru og menningar.

Jón Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, segir þrjú atriði standa upp úr í skýrslunni.

Í fyrsta lagi verði að finna þolmörk lands og þjóðar varðandi fjölda ferðamanna. Þá verði að einfalda markaðssetningu og setja hana jafnvel alla undir hatt Inspired by Iceland. Í þriðja lagi þurfi að einfalda stoðkerfi ferðaþjónustunnar, en í dag komi til að mynda ansi mörg ráðuneyti að því.

Fyrirtækið ráðleggur Íslendingum að leggja meiri áherslu á að ferðamenn eyði meira hér á landi og skilji sem minnst ummerki eftir um veru sína hér, nokkuð sem á ensku er kallað high yield, low impact.

„Ekki endilega að þeir sem komi hingað verði ríkari en áður, heldur að þeim standi til boða þjónusta sem þeir vilja borga fyrir. Við sjáum þetta hjá Bláa lóninu, sem hefur breytt stefnu sinni þannig að nú þarf einnig að greiða fyrir að horfa á. Það er eitthvað í þeim dúr," segir Jón.

Fregnir hafa borist nýlega af slæmum áhrifum virkjana á lífríki Lagarfljóts. Telur Jón að slíkar fréttir vinni gegn ímyndinni um sjálfbært land?

„Það þarf að huga að svona löguðu en við mundum halda því fram að við værum býsna sjálfbært samfélag, hvað varðar orkunýtingu og fleira. En þeir segja að við verðum að koma því betur á framfæri, að sýna í daglegum rekstri fyrirtækja að við stöndum undir því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×