Skoðun

Hótel Borg – bréf til borgarstjóra

Birna Þórðardóttir skrifar
Ágæti borgarstjóri Jón Gnarr.

Ég ákvað að senda þér opinbert bréf, veit vel að þú ert ekki alvaldur enda slíkt ekki hollt en sem fulltrúi fólksins stíla ég bréfið á þig.

Hótel Borg, hótelið í Reykjavík, eins og faðir minn sagði austur á Borgarfirði þegar hann átti erindi í bæinn, er með merkari byggingum í Reykjavík. Einungis þarf að hugsa til tenginga við þúsund ára afmæli Alþingis.

Nú hefur verið leyft, af borgaryfirvöldum, að klastrað skuli utan á þessa formfögru byggingu Guðjóns Samúelssonar út- og uppskálum til þess að unnt verði fyrir eigandann að hala inn meira fé. Snýst miðborg Reykjavíkur, hjarta borgarinnar sem er miðborg allra landsmanna enda ekki annarri til að dreifa, um gróðavon og möguleika einstakra eignamanna? Er það þetta sem við viljum?

Miðborg er annað og meira, miðborg er saga, menning og mannlíf. Verði haldið áfram að breiða yfir söguna, sem vissulega hefur meðvitað verið gert í miðborginni, verði haldið áfram að klastra upp á og utan um, nefni bara Naustið og Víkurgarð, verði haldið áfram að veita leyfi fyrir þau er eiga líf sitt eingöngu í gróðavon, þá er miðborgin dauð.

Voruð þið kjörin til þessa, þið sem sitjið nú við stjórnvöl Reykjavíkurborgar, að fórna Hótel Borg?

Ég sé annan möguleika á svæðinu: Rífa skúrinn á bak við Hótel Borg sem aldrei hefði átt að reisa, en það er annað mál. Þar er dásemdargarður þar sem jómfrúrnar á Jómfrúnni hafa haldið uppi frábærri starfsemi í alllangan tíma með sumardjassi og fleiru. Sá garður yrði tengdur við garðinn á bak við Hressó, þar sem Jörundur hundadagakóngur hóf garðrækt, eini kóngur sem búið hefur hér á landi. Planta nokkrum trjám, búa til skjól og við fengjum unaðsstað í miðborginni. Austurvöllur er ekki nóg, við erum svo mörg sem viljum geta átt góðan dag í miðborginni!

Þannig að – ekki láta eyðileggja Hótel Borg – ekki eyðileggja möguleika fyrir tjúttaðasta torg miðborgarinnar!

Með mjúkum miðborgarkveðjum,

Birna Þórðardóttir




Skoðun

Sjá meira


×