Innlent

Meira en sextíu matvörur í Iceland vitlaust merktar

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Vitlausar merkingar? Langstærsti hluti eftirlits með matvælum er reglubundnar skoðanir heilbrigðiseftirlits í verslunum.
Vitlausar merkingar? Langstærsti hluti eftirlits með matvælum er reglubundnar skoðanir heilbrigðiseftirlits í verslunum. Fréttablaðið/Vilhelm
Heilbrigðiseftirlitið gerði nýlega athugasemdir við meira en sextíu vörur í einni verslun Iceland. Ógerlegt að ná að hafa eftirlit með öllum vörum, segja eftirlitið og MAST. Ritstjóri Neytendablaðsins segir eftirliti ábótavant.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gerði nýlega athugasemdir við merkingar á meira en sextíu vörum í verslun Iceland. Eigendur verslunarinnar fengu frest til að gera úrbætur en sumar vörur voru teknar strax úr umferð. Aðgerðin er hluti af reglubundnu eftirliti stofnunarinnar á merkingum matvæla.

Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, segir að þrátt fyrir þennan mikla fjölda vara sé ógerlegt fyrir eftirlitsstofnanir að finna allar þær vörur sem séu vitlaust merktar á markaðnum.

„Ég ætla mér ekki að heilbrigðiseftirlitin nái utan um allt, það væri voðalega erfitt,“ segir hann. „Ég hefði gjarnan viljað auka eftirlit en það er pólitísk spurning hvort það sé hægt þar sem eftirlitið kostar peninga.“

Ábendingar um matvörur berast til heilbrigðiseftirlitanna frá neytendum, samkeppnisaðilum og fyrirtækjunum sjálfum, en langstærsti hluti þeirra er reglubundið eftirlit með vörum í verslunum og á markaði. Að sögn Óskars eru ekki haldnar tölur yfir heildarfjölda þeirra vara sem skoðaðar eru, heldur einungis þær sem gerðar eru athugasemdir við.

Hann bendir á að ekki eigi þó að beita innköllunum nema þegar vara er ekki örugg á markaði eða innihald ólöglegt.

„Þó eru matvæli hér á landi yfir höfuð mjög örugg en við gætum auðvitað gert miklu betur ef fengist fjármagn til þess,“ segir hann.

Herdís M. Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Matvælastofnun (MAST), tekur undir orð Óskars og segir öruggt að áætla að heilbrigðiseftirlitin nái einungis utan um brot af þeim vörum sem séu vitlaust merktar.

„Það er engin leið að vita hversu stórum hluta þau ná,“ segir hún. „En það er engin leið til að ná yfir þetta allt saman.“

Eftirlit með matvælum á landinu er tvíþætt. Annars vegar annast heilbrigðiseftirlitssvæðin tíu skoðanir á vörum á markaði og hins vegar annast MAST framleiðslu á vörum. Samþætting með innköllunum og eftirliti stofnananna beggja er þó töluverð og er MAST iðulega höfð með í ráðum ef ákveðið er að innkalla vörur af markaði.

Ekki náðist í forsvarsmenn Iceland við vinnslu fréttarinnar..




Fleiri fréttir

Sjá meira


×