Erlent

Hefur tekist að snúa öllu á hvolf á Ítalíu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Þýskir ráðamenn segja hann sams konar trúð og Berlusconi.
Þýskir ráðamenn segja hann sams konar trúð og Berlusconi. fréttablaðið/AP
Ítalski stjórnmálaleiðtoginn Beppe Grillo tekur sér stöðu meðal fólksins gegn ráðamönnum og stjórnmálaelítunni. Hann útilokar þátttöku í stjórnarsamstarfi en reiknar með að gömlu vinstri og hægri öflin reyni að mynda breiða stjórn.

Ítalski skemmtikrafturinn Beppe Grillo, sem nú er orðinn leiðtogi þriðja stærsta stjórnmálaafls Ítalíu, getur ekki sjálfur sest á þing. Hann er ekki með hreina sakaskrá, og bauð sig því ekki fram til þings sjálfur.

Honum hefur hins vegar tekist að hrista duglega upp í ítölskum stjórnmálum, og þótti mörgum ekki vanþörf á, en aðrir hafa sagt ástandið hafa verið nógu ruglað fyrir, svo mjög að varla sé á það bætandi.

Þýskir ráðamenn eru meðal þeirra sem segja Grillo vera sams konar trúð og Silvio Berlusconi og óttast að ítalska þingið geti næstu mánuðina ekki komið nokkru í verk. Margt bendir til þess að stutt sé í nýjar kosningar á Ítalíu.

Grillo er fæddur í Genúa árið 1948. Hann verður því 65 ára gamall á þessu ári. Hann er sex barna faðir og menntaður sem endurskoðandi. Hann átti hins vegar auðvelt með að komast skemmtilega að orði og sneri sér að gríninu strax eftir útskriftina. Grínið var oftar en ekki pólitískt og fór iðulega fyrir brjóstið á heldra fólki og framámönnum.

Kosningabaráttan síðustu mánuðina var í raun beint framhald á því sem hann hefur verið að gera á grínsviðinu. Hann hefur tekið sér stöðu meðal almennings úti á götum og torgum og krefst þess að fólkið fái að ráða sjálft, án milligöngu stjórnmálamanna. Stefnan sem Fimm stjörnu hreyfingin hans stendur fyrir hefur verið nefnd „fancullismo" á ítölsku, sem er dónalegt orð og gengur helst út á það að gefa skít í ráðamenn og stjórnmálaelítuna.

Glæsilegur sigur hans í þingkosningunum í byrjun vikunnar gerir það að verkum að varla er nokkur möguleiki á að mynda stjórn nema með þátttöku flokks hans, eða einhvers konar stuðningi. Yfirlýsingar hans í kosningabaráttunni benda þó varla til þess að hann hafi mikinn áhuga á því að hjálpa gömlu flokkunum.

Sjálfur segist Grillo ekkert vita hvað hann eigi að gera í stöðunni, en útilokar þátttöku í stjórnarsamstarfi. Á bloggsíðu sinni segir hann það hreinlega vera „glæp gegn vetrarbrautinni" að afhenda Berlusconi stjórnina á ný.

Hann segist hins vegar reikna með að gömlu vinstri og hægri öflin reyni að mynda breiða stjórn: „Þeir geta haldið það út í sjö eða átta mánuði og út úr því koma hörmungar einar, en við munum reyna að hafa eftirlit með þeim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×