Skoðun

Ég hlýt að vera ansi mögnuð kona – hættum að bíða endalaust eftir hrósinu!

Margrét Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu um jafnrétti og stöðu kynjanna. Þetta stendur mér sérlega nærri nú, þar sem ég stefni á útskrift í vor og er að leita mér að vinnu. Maðurinn minn er að útskrifast úr sama fagi og er því einnig í atvinnuleit. Við erum bæði tiltölulega ung, ég er rétt að verða 24 ára og hann 26 ára. Við eigum 2 börn og erum að ljúka 5 ára lögfræðinámi. Við ættum því bæði að vera í sömu stöðu, en það sorglega er að hann hefur fengið áberandi fleiri jákvæð svör við atvinnufyrirspurnum en ég.

Eins og gefur að skilja hefur þetta truflað mig töluvert og ég hef verið að íhuga hvað ég geti gert til þess að breyta stöðunni. Um daginn las ég grein sem fjallaði um það hvernig konur brjóta oft sjálfar sig niður, með því að taka frekar mark á neikvæðum en jákvæðum athugasemdum. Ef einhver segir t.d. að þær séu feitar eða líti ekki nóg og vel út, festast þær gjarnan í að velta sér upp úr því og fara á endanum að trúa því sjálfar. Aftur á móti þegar einhver talar um að þær séu flottar eða góðar í einhverju gera þær frekar lítið úr því eða taka ekki mark á því.

Þegar ég hugsa um stöðu kvenna í þjófélaginu og það hvað við konur getum oft verið harðar við okkur sjálfar þá er ekki skrítið að við náum ekki langt í jafnréttisbaráttunni. Því ef við trúum ekki á okkur sjálfar, hvers vegna ættu aðrir að gera það? Ég er ekki að kenna konum um hversu stutt á veg jafnréttisbaráttan er komin, ástæður þess eru margvíslegar. En það sem skiptir máli er að við sjálfar getum breytt því, að einhverju leyti, hvernig aðrir hugsa um okkur.

Við þurfum að stoppa og gera okkur grein fyrir því í hverju við erum góðar og vera stoltar af því. Hvort sem það er að vera góður á skíðum, elda kjötsúpu, passa börn eða reka fyrirtæki. Við þurfum að vita hvar styrkleikar okkar liggja, og vera stoltar af þeim, og ekki síst að viðurkenna fyrir okkur sjálfum hversu góðar og sterkar við erum. Við getum ekki verið sérfræðingar á öllum sviðum og þurfum því öll að hjálpast að og styðja hvert annað. Ég held að til dæmis að með því að hringja í vinkonu og spyrja hana út í eitthvað sem ég tel að hún viti betur um en ég veiti það henni viðurkenningu og efli hana í að hugsa betur um sjálfa sig og vera stolt af því vera hún.

Við þurfum að byggja okkur upp með því að hugsa og tala um okkur sjálfar á jákvæðan hátt. Horfa í spegilinn og sjá þar fallegu, sterku og sjálfstæðu konuna. Og gera það þangað til við trúum því! Við erum því miður margar duglegar við að brjóta okkur niður. Sjáum okkur sem feitar, ljótar og duglausar. Öll verk skipta máli, hvort sem það er að elda matinn, hjúkra einhverjum, passa börn, kenna börnum, reka fyrirtæki o.s.frv. Allt eru þetta mikilvægar stöður í nútímasamfélagi sem þarf að sinna og eitt starf er ekki mikilvægara öðru. Þjóðfélagið byggir á því að öll störf séu unnin vel. Kona eða karl sem á börn getur til dæmis ekki unnið úti nema einhver sinni börnunum á meðan.

Nú skulum við taka okkur á saman. Ég ætla að byrja á því að bæta við í kynningarbréfin sem ég sendi með atvinnuumsóknum að þrátt fyrir að vera einungis 24 ára þá hafi mér tekist að gifta mig, eignast tvö börn, klára fjölmiðlatækni, stúdentspróf, 5 ára háskólanám í lögfræði þrátt fyrir að hafa átt við námsörðugleika að stríða. Ég ætla ekki að vonast til þess að atvinnurekandinn lesi hversu öflug ég er á milli línanna.

Hættum að bíða endalaust eftir hrósinu og segjum við okkur sjálfar:

Ég hlýt að vera ansi mögnuð kona!




Skoðun

Sjá meira


×