Innlent

Leita hrossakjöts í nautahakki

Svavar Hávarðsson skrifar
Í Evópu logar allt vegna hrossakjötshneykslisins – Matvælastofnun hefur brugðist við. nordicphotos/gettyimages
Í Evópu logar allt vegna hrossakjötshneykslisins – Matvælastofnun hefur brugðist við. nordicphotos/gettyimages
Matvælastofnun hefur tekið sýni úr íslensku hakki og framleiðsluvörum á markaði hérlendis til að kanna hreinleika kjötsins. Markmiðið er að kanna hvort hrossakjöt sé að finna í vörunum. Hrossakjötshneykslið í Evrópu er tilefni rannsóknarinnar, segir í fréttatilkynningu.

Rannsóknir á matvörum í Evrópu hafa leitt í ljós að sumar þessara vara innihalda hrossakjöt að hluta eða öllu leyti. Komið hefur í ljós að vörur sem þessar hafa að einhverju marki verið fluttar til Íslands og hafa tvær vörutegundir verið innkallaðar vegna þess.

Árið 2010 birti Matís niðurstöður gæðakönnunar á íslensku nautahakki sem gerð var fyrir Neytendasamtökin og Landssamband kúabænda. Þær sýndu að öðrum kjöttegundum var ekki blandað við nautahakkið.

Tekin hafa verið sýni úr fimmtán framleiðsluvörum sem líklegast má telja að unnt sé að blanda hrossakjöti í án þess að það sé tilgreint á pakkningum. Sýnin verða rannsökuð á Keldum og má búast við niðurstöðum í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×