Skoðun

Græðum

Friðrik Rafnsson skrifar
Flest okkar eiga sér þann draum að búa í friðsælu, öruggu og réttlátu samfélagi en hafa megnustu andstyggð á því gróðabraski og þeirri sjálftöku sem hér var látin viðgangast um árabil og virðist raunar lítið lát vera á þrátt fyrir allar vönduðu rannsóknarskýrslurnar og fögru fyrirheitin. Þegar gróðinn verður markmið í sjálfu sér og gróðafíknin tekur völdin er fjandinn laus eins og alltof mörg nýleg dæmi sanna. Þá bjagast fókusinn gersamlega, menn missa sjónar á því sem mestu skiptir, hugsa eingöngu um eigin stundarhagsmuni. Ef samfélagið kemur sér ekki saman um leikreglur og leiðir til að stoppa þá af lenda þeir úti í móa fyrr eða síðar, hrapa og taka því miður oft marga með sér í fallinu eins og nýliðin hrunsaga hefur sýnt okkur.

Orðabækur eru gullnámur tungunnar. Dæmi. Samkvæmt Íslensku samheitaorðabókinni eru samheitin við græðgi þessi: afla, auðgast, ábatast, hafa ábata af, hafa hag af, hafa upp úr krafsinu, hagnast, maka/mata krókinn, vera í gróða, verða ríkur, þéna; nurla saman; lækna. Dásamlegt hvernig sögnin ?lækna? rekur þarna lestina af stakri hógværð, en hún er einmitt lykillinn að þeirri hugarfarsbreytingu sem nú þarf að eiga sér stað í íslensku samfélagi. Mikilvægur þáttur í henni er að reyna að hlusta hvert á annað, draga úr þeim öskurapahætti sem hefur einkennt umræður hér, vinna saman, tala saman, slíðra sverðin, græða sárin.

?Betra er heilt en gróið,? segir einn þeirra gömlu málshátta sem gengnar kynslóðir hafa látið okkur í té. Íslenskt samfélag er verulega laskað og langt frá því að vera heilt eftir kreppu, illindi og átök undanfarinna ára. Við verðum að læra af þeim myrkraverkum sem hér voru framin og draga það fólk sem þau framdi til ábyrgðar, en gæta þess jafnframt að efnahagskreppan verði ekki að krónískri þjóðarsálarkreppu. Horfa til birtunnar og gróandans sem vorið mun færa okkur. Meginverkefnið sem bíður okkar allra er því að græða íslenskt samfélag, á því græðum við öll.




Skoðun

Sjá meira


×