Skoðun

Afmæli Vinjar

Húsið Vin á Hverfisgötu 47 í Reykjavík er hús sem ber nafn með rentu. Það er sannkölluð Vin í hinni illræmdu eyðimörk félagslegrar einangrunar sem svo alltof margir í okkar samfélagi búa við. Í Vin koma gestir til þess að hitta kæra vini sem eiga sinn þátt í því, ásamt starfsfólki og góðum anda þessa gamla húss, að rjúfa alla einangrun og láta gestum og gangandi líða eins og heima hjá sér.

Meira að segja allt eins vel og áhyggjulausum ungmennum sem búa enn við öryggi í foreldrahúsum.

Brotnar fjölskyldur

En það er ekki alveg víst að gestir Vinjar hafi búið við öryggi í sínum foreldrahúsum þegar þeir voru börn og ungmenni. Margir þeirra koma frá brotnum fjölskyldum þar sem eitt og annað var ekki endilega til sýnis fyrir gesti og gangandi, hvort sem um var að ræða alvarlega vankanta foreldris eða annars heimafólks, veikindi eða enn þá verra heimilisböl.

Fjórðungi bregður til fósturs, segir máltækið og mikið er til í því. Þó er ekki þar með sagt að þeir sem eiga Vin sem sitt annað heimili hafi búið við heimilisböl í barnæsku því til er það böl sem á aðsetur sitt og upptök í sálum mannanna og skiptir þá engu hvort vel eða illa er að þeim hlúð í barnæsku.

Sem betur fer eru augu samfélagsins að uppljúkast fyrir þessu illræmda böli sem situr um sálir manna, hárra jafnt sem lágra. Og nú til dags er þeim sem fyrir bölvuninni verða ekki úthýst úr mannlegu samfélagi og þeir lokaðir inni í dimmum turnherbergjum í drungalegum stórhýsum, vegna þess að engin manneskja með fullu viti má af þeim vita.

Galopnar dyr

Því nú á dögum bjóða heilu húsin, meira að segja hús sem hafa gamla og þrautgóða sál, þeim sem enginn með fullu viti mátti af vita hér áður fyrr velkomna, og það með galopnum dyrum upp á gátt.

Með þetta allt í huga biðja því gestir og heimagangar í Vin annað fólk, bæði ráðamenn og aðra sem hafa frekar lítil ráð en eru svo heppnir að hafa nokkurn veginn haldið ráði og rænu á þessum síðustu (og sem sumir segja) verstu tímum, að gleðjast með sér á 20 ára afmæli Vinjar, þann 8. febrúar, jafnframt því að biðja um stuðning og velvilja varðandi áframhaldandi rekstur hússins Vinjar.




Skoðun

Sjá meira


×