Skoðun

Uppbygging Ljósnets

Sævar Freyr Þráinsson skrifar
Síminn hefur ákveðið að ljósnetvæða 53 þéttbýlisstaði á landsbyggðinni á árinu. Það þýðir að allt að 16 þúsund heimili, öll á landsbyggðinni, bætast við fyrri áætlanir Símans um 100 þúsund heimili um mitt næsta ár.

Þetta er stórt skref fyrir Símann. Það hefur áhrif á mörg minni sveitarfélög úti á landi. Þau hefðu líklega þurft að bíða þess að háhraðanet yrði sett upp að fullu á stærri stöðum áður en röðin kæmi að þeim. Heimili 11 þéttbýlisstaða sem fá Ljósnet í símstöð fá auk þess í fyrsta sinn fulla sjónvarpsþjónustu. Þau munu geta valið úr yfir hundrað sjónvarpsstöðvum í stað á annan tug nú. Og netið eflist.

En af hverju þessir 53 staðir umfram aðra? Valinu ræður: a) stærð staðanna, b) tengingar til þeirra og c) staðsetning símstöðvanna í bæjarfélaginu. Við viljum ná til sem flestra. Það fleytir sem flestum fram veginn og hefur mestu áhrifin á þjóðarbúið í heild.

16 þúsund bætast í hópinn

Þessi ákvörðun sýnir þá áherslu sem Síminn leggur á þjónustu við landsbyggðina. Nú bíðum við almennt með að leggja Ljósnetið á jöðrum hverrar byggðar þar til símstöðvar þessara 53ja staða hafa verið uppfærðar. Þannig tekst okkur að ljósnetvæða þúsundir heimila fyrir það fé sem kostaði að tengja á jöðrum fárra þeirra.

Við breyttum verkáætlun okkar þótt það þýddi að bæjarbúar eða þéttbýli innan hvers sveitarfélags tengdist ekki háhraðaneti á sama tíma. Við veljum þessa leið því hún hefur þann ótvíræða kost að færri þurfa að bíða þess að fá háhraðanet heim til sín.

Við hjá Símanum viljum benda á að 62 þúsund heimili geta nýtt Ljósnetið. Með þessari ákvörðun er stefnt að því að þau verði orðin allt að 116 þúsund um mitt næsta ár. Uppbyggingin hefur verið hröð. Hún hefur aðeins staðið frá árinu 2009. Þetta eru fyrstu stóru skref Símans á landsbyggðinni; tekin fyrr en stóð til.

Við hjá Símanum hefjum þessa vegferð því við gerum okkur fulla grein fyrir því að fjarskipti skipa lykilsess í grósku samfélaga. Með ákvörðuninni viljum við skapa tækifæri fyrir landsmenn að hasla sér völl þar sem þeir vilja helst. Þetta er fyrsta skrefið til þess.




Skoðun

Sjá meira


×