Innlent

Jákvæðir gagnvart aðild Kínverja

Svavar Hávarðsson skrifar
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, Leona Aglukkaq, kanadískur þingmaður, og Magnús Jóhannesson sátu fyrir svörum. Í stiganum má sjá Steingrím J. Sigfússon. 
Arctic Council/Linnea Nordström
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, Leona Aglukkaq, kanadískur þingmaður, og Magnús Jóhannesson sátu fyrir svörum. Í stiganum má sjá Steingrím J. Sigfússon. Arctic Council/Linnea Nordström
Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, er jákvæður gagnvart því að Kínverjar fái áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Carl Bildt, sænskur kollegi hans, tekur undir það sjónarmið.

„Það er mikilvægt að þjóðir fái aðild að okkar klúbbi. Þeir stofna ekki sinn eigin klúbb á meðan," sagði Espen Barth Eide til að leggja áherslu á þá skoðun sína að fjölga ætti áheyrnarþjóðum að Norðurskautsráðinu. Við undirritun samnings um nýja fastaskrifstofu Norðurskautsráðsins í Tromsö kom þetta skýrt fram í máli ráðherrans. Stofnun skrifstofunnar er mikilvægur liður í að styrkja vægi ráðsins í alþjóðlegri umræðu og ákvarðanatöku í málefnum norðurslóða, sem er forgangsmál í norðurslóðastefnu Íslands.

„Það eru góðar fréttir að margir hafa lýst áhuga á að sitja við okkar borð. Eitt af stóru verkefnunum er að ákveða hverjir fá inni, samkvæmt þeim skilyrðum sem við höfum sett. Þetta kemur í ljós í maí," sagði Eide og vísaði til ráðherrafundar sem haldinn verður í Kiruna í Svíþjóð.

Við undirskriftina var Eide spurður hvort þessi afstaða Noregs væri útrétt sáttahönd vegna deilu þjóðanna í kjölfar veitingar friðarverðlauna Nóbels árið 2010. Eide blés á að samhengi væri þarna á milli.

Áhugi Kínverja á norðurslóðum er öllum ljós. Ekki er langt síðan Snædrekinn, gríðarstór ísbrjótur, lá við bryggju á Íslandi eftir að hafa siglt norðausturleiðina um Norður-Íshaf. Um var að ræða fimmta leiðangur skipsins sem var hér í boði íslenskra stjórnvalda nokkra daga í ágúst.

Hafa ber í huga að áheyrnaraðild er háð samþykki stofnríkjanna átta. Menn velta fyrir sér hvort áhugi á rannsóknum og samvinnu, sem eru ástæðurnar sem Kínverjar halda á lofti, eru raunveruleg ástæða áhuga þeirra, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru sennilega Kanadamenn og Rússar líklegastir til að leggjast gegn aðild Kínverja. Tólf þjóðir og ýmis samtök hafa sótt um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Auk Kína eru það Ítalía, Japan, Suður-Kórea, Indland og síðast en ekki síst Evrópusambandið auk samtaka eins og Greenpeace – en þegar eiga hátt á annan tug samtaka áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.

María Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, hélt ræðu á ráðstefnunni Arctic Frontiers 2013 þar sem áhugi ESB var öllum ljós. Hún kallaði eftir ákvörðunartöku varðandi loftslagsmál og kallaði hún eftir aðgerðum. Má hnykkja á því sem Carl Bildt sagði í sinni ræðu á ráðstefnunni að þrjár til fjórar stórar kolakyntar verksmiðjur eru opnaðar í Kína og á Indlandi í hverri viku, en allir stjórnmála- og vísindamenn eru sammála um að Norðurskautsráðið sé mikilvægasti vettvangurinn varðandi þennan málaflokk, og því þurfi mjög að líta til ráðsins í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×