Lífið

Loftið opnar í kvöld - Hálfdan Pedersen hannar staðinn

Loftið opnar á efri hæð Austurstrætis 9 í kvöld.
Loftið opnar á efri hæð Austurstrætis 9 í kvöld.
"Húsið á sér mjög langa sögu og hefur verið eitt og annað í gegnum tíðina en þó alltaf kallað Jacobsens húsið. Við færðum rýmið í eins upprunalegt horf og við gátum. Þegar við fjarlægðum málningu af veggjum kom í ljós litur sem hafði eitt sinn verið á veggjunum og við héldum honum, sem og munstri sem að hillur sem smíðaðar höfðu verið í verslunina höfðu mótað í veggina,“ segir Hálfdan Pedersen, leikmynda- og innanhúshönnuður, sem fenginn var til að hanna innviði skemmtistaðarins Loftsins sem opnar í kvöld. Skemmtistaðurinn er í Austurstræti 9 og í sama húsnæði og áður hýsti verslunina Egil Jacobsen og veitingastaðinn La Primavera. Verslunin Egill Jacobsen var stofnuð af dönskum kaupmanni árið 1906 og í eigu sömu fjölskyldu allt til ársins 1997. Hálfdan hefur starfað sem leikmyndahönnuður í tæp tuttugu ár, þar af tíu í Los Angeles, en undanfarið hefur hann fengist meira við innanhúshönnun. Hann hefur meðal annars hannað verslunina Geysi, Kex Hostel og veitingastaðinn Snaps. Staðirnir hafa allir notið mikilla vinsælda og mætti segja að allt sem Hálfdan snertir verði að gulli, en sjálfur gerir hann lítið úr þeirri yfirlýsingu. Hvert er leyndarmálið að baki velgengninni? "Ég tek langan tíma í að stara á tóman strigann og finna þarfir rýmisins. Þetta er eins og að flytja inn í nýja íbúð, það tekur mann nokkur ár að hanna rýmið þannig að manni líði sem best í því. Ætli bakgrunnurinn í leikmyndahönnun komi ekki að notum líka, maður er vanur að fara óhefðbundnar leiðir í því að afla húsmuna,“ segir hann. Hálfdan segir staðinn ætlaðan fjölbreyttum hópi fólks og lýsir andrúmsloftinu sem afslöppuðu og rómantísku. "Staðurinn ætti að höfða til þeirra sem vilja setjast niður, spjalla og njóta góðra veitinga.“ Hægt er að fylgjast nánar með framvindu mála á Facebook-síðu Loftsins.
Hálfdan Pedersen hannaði skemmtistaðinn Loftið sem opnar í kvöld.
...





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.