Innlent

Engin sátt um stjórnarskrána

Birgir Ármannsson og Valgerður Bjarnadóttir
Birgir Ármannsson og Valgerður Bjarnadóttir
Engar viðræður eru í gangi um breytingar á einstökum köflum stjórnarskrárinnar gegn því að beðið verði með önnur atriði fram yfir kosningar. Þetta segir Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að stjórn og stjórnarandstaða ættu í viðræðum þar að lútandi. Var þar meðal annars haft eftir Gunnari Braga Sveinssyni, þingflokksformanni Framsóknarflokksins, að stjórnarflokkarnir hefðu rætt við stjórnarandstöðu um málið.

Valgerður segist hins vegar ekki kannast við slíkar viðræður.

„Það eru engar efnislegar samningaviðræður í gangi. Við erum bara að vinna okkar nefndarvinnu og höfum því miður ekki fengið neitt innlegg frá minnihlutunum. Það væri gleðilegt ef svo væri, en því miður er svo ekki."

Birgir Ármannsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, segir enga sátt um stjórnarskrármálin í augsýn. „Ég sé í augnablikinu ekkert samkomulag í spilunum," segir Birgir. Ekkert mun hafa verið fundað um málið síðan í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×