Innlent

Vilja að mengunarákvæði standi óbreytt næstu árin

Svavar Hávarðsson skrifar
Hreinsibúnaður fyrir jarðhitavirkjanir krefst milljarða fjárfestingar, verði ósk um frestun hafnað. fréttablaðið/valli
Hreinsibúnaður fyrir jarðhitavirkjanir krefst milljarða fjárfestingar, verði ósk um frestun hafnað. fréttablaðið/valli
Jarðhitafyrirtækin þrjú, Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun og HS Orka, hafa óskað eftir því við umhverfisráðherra að gildistöku hertra ákvæða reglugerðar um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti verði frestað til ársins 2020. Reglugerðin var sett árið 2010, meðal annars til að draga úr skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og umhverfið í heild og á að taka gildi um mitt ár 2014.

Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitunnar, segir að aðalástæða þess að óskað er eftir frestuninni sé sú að þegar hert ákvæði reglugerðarinnar taki gildi þá verði fyrirtækið ekki tilbúið með mengunarvarnarbúnað á iðnaðarskala.

Orkuveitan hefur um árabil unnið að því að þróa nýja tækni til að draga úr styrk brennisteinsvetnis í útblæstri Hellisheiðarvirkjunar. Þá er brennisteinsvetnið skilið frá jarðgufunni og því blandað saman við affallsvatn sem leitt er um niðurrennslisholur aftur ofan í jarðhitakerfið. Ef þetta tekst er um hagkvæma og skilvirka lausn að ræða; reyndar umhverfisvænsta kostinn og þann hagkvæmasta, að sögn Hólmfríðar.

Aðrar lausnir eru mjög dýrar, en í ákvæðum starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem kann að valda mengun af völdum brennisteinsvetnis skal beita bestu fáanlegu tækni til að hamla loftmengun. Stofnkostnaður við að setja upp bestu fáanlegu tækni fyrir 90 megavatta virkjun, sem er skylt samkvæmt ákvæðum starfsleyfis fyrirtækisins, gæti orðið um tveir milljarðar króna og rekstrarkostnaður um einn milljarður króna. Hellisheiðarvirkjun er rúmlega 300 megavött.

Umhverfisstofnun hefur tíma til 15. febrúar til að fjalla um ósk fyrirtækjanna og skila umsögn til ráðuneytis umhverfismála, sem fer með forræði í málinu. En hvað ef ósk fyrirtækisins um frestun gildistökunnar verður hafnað? Í viðtali við Fréttablaðið í maí 2011 fengust þau svör frá fyrirtækinu að ef tilraunaverkefnið skilaði ekki tilætluðum árangri yrði ráðist í fjárfestingar á hreinsibúnaði, enda væri ekki um neitt annað að ræða en mæta kröfum reglugerðarinnar.

Staða OR skipti þar engu um því fyrirtækið myndi mæta þeim kröfum sem fyrirtækinu væru settar varðandi mengun. Þessi afstaða fyrirtækisins er óbreytt, að sögn Hólmfríðar, enda ber fyrirtækinu að hlíta lögum og reglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×