Innlent

Íbúar mótmæla læknisleysi um helgar

Grundarfjörður Íbúar vilja ekki vera læknislausir um helgar í Grundarfirði.Fréttablaðið/Vilhelm
Grundarfjörður Íbúar vilja ekki vera læknislausir um helgar í Grundarfirði.Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta er grafalvarlegt mál og í raun spurning um hvort fólk geti búið hér áfram,“ segir Hjördís Vilhjálmsdóttir, einn íbúa í Grundarfirði sem berjast gegn fyrirhuguðum niðurskurði sem þýðir að ekki verður starfandi læknir í bænum um helgar.

Hópur Grundfirðinga mætti á síðasta fund bæjarstjórnar til að afhenda mótmælabréf sem 350 manns skrifuðu undir vegna niðurskurðarins. Sameina á vaktsvæði lækna í Ólafsvík og Grundarfirði. Læknislaust verður þess vegna í Grundarfirði aðra hverja helgi og jafnvel oftar. Óskaði hópurinn eftir samvinnu við bæjarstjórnina, sem segir fyrir sitt leyti að með skerðingu á grundvallarþjónustu í heilsugæslu sé ráðist með grafalvarlegum hætti að öryggi íbúa og búsetuskilyrðum í sveitarfélaginu.

Hjördís segir það hafa sannast hvað eftir annað að undanförnu hversu miklu máli skipti að hafa lækni í bænum. Til dæmis megi gera ráð fyrir að það hafi bjargað lífi konu sem fékk heilahimnubólgu í desember. Til Ólafsvíkur séu 28 kílómetrar og einstaka sinnum sé jafnvel ófært þar á milli.

„Þarf að kosta mannslífi til svo menn sjái hversu mikið óráð þetta er?“ spyr Hjördís og minnir á að Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hafi sagt í sjónvarpsviðtölum nýlega að ekki yrði lengra gengið í niðurskurði í grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins. „Á sama tíma er verið að læða þessum niðurskurði inn hér.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×