Innlent

Varð undir veghefli en kláraði vaktina

Heppinn Pétur Óli segist vera heppinn að vera á lífi enda varð hann undir veghefli í fyrrinótt án þess að hljóta mikinn skaða. Hann hélt snjómokstursvaktinni áfram þrátt fyrir óhappið.fréttablaðið/stefán
Heppinn Pétur Óli segist vera heppinn að vera á lífi enda varð hann undir veghefli í fyrrinótt án þess að hljóta mikinn skaða. Hann hélt snjómokstursvaktinni áfram þrátt fyrir óhappið.fréttablaðið/stefán
Pétri Óla Péturssyni tókst með snarræði að bjarga eigin lífi þegar hann varð nærri undir veghefli sem hann ók sjálfur. Hann var að vinna við Korputorg á höfuðborgarsvæðinu þegar atvikið varð. Hann segist aðeins vera skrámaður og bólginn og gat klárað vaktina í fyrrinótt.

„Þetta gerðist nú bara þannig að ég var að fara að ryðja snjó um miðnættið og setti hefilinn í gang," segir Pétur Óli þegar hann er beðinn um að lýsa atvikinu. „Það var töluvert frost úti, svona fimm eða sex stig. Hefillinn var búinn að ganga í nokkrar mínútur þegar ég gaf honum inn og ætlaði af stað. Þá fraus olíugjöfin föst í hvínandi botni."

Pétur steig þá úr stjórnklefa tækisins og ætlaði að losa olíugjafarbarkann undir stýrishúsinu. Til þess þurfti hann að teygja sig undir hefilinn á milli fram- og afturhjólanna á liðstýrðum heflinum. „Ég teygi mig þarna undir húsið, í svartamyrkri, og tel mig vera kominn með höndina á réttan barka til að slaka á olíugjöfinni en þá reyndist það vera gírstangarbarkinn."

Með því að tekið var á vitlausum barka hrökk hefillinn í gír og rauk af stað og yfir Pétur. „Afturdekkið fór aðeins yfir löppina á mér," segir Pétur. „Með gríðarlegu átaki náði ég að slíta mig lausan þarna, annars hefði getað farið illa."

Pétur horfði svo á eftir heflinum hátt í þrjú hundruð metra áður en hann hljóp á eftir honum. „Ég reif mig bara á lappir og náði að príla upp í hann og koma honum úr gír."

Hefillinn var að sögn Péturs ekki á leiðinni að rekast á neitt en hann veit af klettum hundrað metrum frá því þar sem hann náði stjórn á tækinu.

„Ef maður hefði verið í íbúðahverfi hefði getað farið verr. Þetta sýnir manni að þó maður sé búinn með 60 þúsund vinnustundir á svona tæki er maður aldrei fullnuma í þessu," segir Pétur.- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×