Innlent

Lítill ábati af kauphækkunum

Þórarinn G. Pétursson
Þórarinn G. Pétursson
Miklar hækkanir launa við endurskoðun gildandi kjarasamninga munu ekki bæta kaupmátt launafólks heldur einungis kynda undir verðbólgu. Þetta segir Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, í grein í Fréttablaðinu í dag.

Þórarinn segir launahækkanirnar sem samið var um vorið 2011 ekki hafa skilað því sem að var stefnt, heldur leitt til aukinnar verðbólgu af því að fyrirtæki veltu kostnaðarhækkunum sem voru þeim um megn út í verðlagið. „Þótt erfiðara sé að sýna fram á það, er hugsanlegt að þessar miklu launahækkanir hafi einnig hægt á nýráðningum og jafnvel leitt til uppsagna. Ábati launafólks af þessum ríflegu nafnlaunahækkunum hefur því verið takmarkaður,“ skrifar hann.

Þórarinn segir komið hafa á daginn að það sé rangt sem aðilar vinnumarkaðarins héldu fram í kjölfar samninganna vorið 2011 að launahækkanir myndu styrkja gengi krónunnar. „Þvert á móti var ljóst að þær myndu hvorttveggja í senn, setja aukinn þrýsting á krónuna og kynda undir verðbólgu, og grafa með því undan forsendum samningsins um hækkandi gengi krónunnar og litla verðbólgu.“

Seðlabanki Íslands hefur áður gagnrýnt gildandi kjarasamninga fyrir of miklar launahækkanir. Þá hefur peningastefnunefnd bankans, sem Þórarinn situr í, gefið í skyn að hækki laun mikið við endurskoðun samninga verði stýrivextir hækkaðir. Þórarinn segir í greininni að hættan á að samið verði um óhóflegar launahækkanir ætti að vera minni ef aðilar vinnumarkaðarins búist við að þeim verði mætt með hækkun vaxta og auknu peningalegu aðhaldi til að vinna gegn verðbólgu. „Í þessu ljósi ber að skoða nýleg viðvörunarorð peningastefnunefndar,“ segir hann.- mþl / sjá síðu 24




Fleiri fréttir

Sjá meira


×