Skoðun

Hagsmunir Reykvíkinga

Björn B. Björnsson skrifar

Ástæða mótmæla gegn áformum borgaryfirvalda um að breyta deiliskipulagi á þann veg að leyfilegt verði að byggja risahótel á Landssímareitnum er sú að bygging hótelsins er andstæð hagsmunum borgarbúa.

Bygging hótelsins mun valda skaða á Ingólfstorgi, Austurvelli, í Kirkjustræti og Fógetagarðinum, auk þess sem Nasa-salurinn verður rifinn – og við sitjum uppi með óleyst umferðarvandamál.

Hagsmunir lóðareigandans eru þeir að fá að byggja hótel því með því hámarkar hann gróða sinn í þessum viðskiptum en það eru ekki einu hagsmunirnir sem taka þarf tillit til. Ef við horfum á málið út frá hagsmunum borgarbúa (og annarra landsmanna) lítur dæmið svona út:

1. Það þjónar ekki hagsmunum Reykvíkinga að Nasa-salurinn verði rifinn.

2. Það þjónar ekki hagsmunum Reykvíkinga að í stað Nasa-salarins komi há bygging sem ber gamla Kvennaskólann ofurliði (og veldur skuggavarpi á Austurvelli).

3. Það þjónar ekki hagsmunum Reykvíkinga að snúa af þeirri braut að á Ingólfstorgi séu gömul hús á þrjá vegu.

4. Það þjónar ekki hagsmunum Reykvíkinga að skemma Landsímahús Guðjóns Samúelssonar með kvistum eftir endilöngu þakinu.

5. Það þjónar ekki hagsmunum Reykvíkinga að byggja viðbyggingu við viðbyggingu Landsímahússins alveg að Kirkjustræti og loka þannig fallegu útsýni milli Austurvallar og Fógetagarðs.

6. Það þjónar ekki hagsmunum Reykvíkinga að taka morgunsólina úr Fógetagarðinum með þessari viðbyggingu.

7. Það þjónar ekki hagsmunum Reykvíkinga að afhenda einkaaðila endurgjaldslaust stíginn milli Ingólfstorgs og Fógetagarðs til að byggja á og yfir. Borgarbúar eiga að geta gengið þennan stíg án þess að þurfa fara í gegnum hótel eða annað fyrirtæki.

8. Það þjónar ekki hagsmunum Reykvíkinga að auka skuggavarp á Austurvelli (með hárri byggingu þar sem Nasa-salurinn er nú, kvistum ofan á Landsímahúsinu og viðbyggingu við viðbygginguna á Landsímahúsinu).

9. Það þjónar ekki hagsmunum Reykvíkinga að draga alla þá umferð sem fylgir stóru hóteli inn á viðkvæmasta stað miðborgarinnar við Alþingishúsið og Austurvöll.

10. Það þjónar ekki hagsmunum Reykvíkinga að þrengja að Alþingi, aðgengi þess og öryggi eins og þingið hefur bent á í mótmælum sínum gegn þessum áformum.

Niðurstaðan er sú að það sé andstætt hagsmunum Reykvíkinga að reist verði hótelbygging á þessum stað og það er skylda borgarfulltrúa, hvar í flokki sem þeir eru, að standa vörð um hagsmuni borgarbúa.

Mótmælafundur gegn þessum áformum verður haldinn á Austurvelli á laugardaginn kl. 14.00.




Skoðun

Sjá meira


×