Innlent

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn: "Viðhorf gagnvart geðsjúkdómum breytast of hægt"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður sagði frá sinni reynslu af geðrænum erfiðleikum.
Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður sagði frá sinni reynslu af geðrænum erfiðleikum.


Dagskrá í tilefni af Alþjóða geðheilbrigðisdeginum hófst með ávarpi borgarstjóra við Hallgrímskirkju klukkan fjögur og síðan marseruðu viðstaddir niður Skólavörðuholtið í Hörpu, þar sem hátíðardagskrá fór fram.

Í Hörpu sagði Ómar Ragnarsson frá eigin reynslu af geðrænum erfiðleikum. Hann segir mikilvægt að halda dag sem þennan. „Það er sérstaklega mikilvægt með þessa sjúkdóma því við erum alls ekki búin að taka þá í sátt eins og aðra sjúkdóma. Þeir sem þjást af geðsjúkdómum geta ekkert að því gert en það er oft verið að niðurlægja þá og tala niður til þeirra,“ segir Ómar.

Yfirskrift dagsins er Geðheilsa á efri árum en nýleg íslensk rannsókn sýnir að yfir 80% íbúa hjúkrunarheimila nota geðlyf og yfir helmingur þeirra er á þunglyndislyfjum. Ómar þekkir geðsjúkdóma af eigin raun, bæði hjá fjölskyldumeðlimum og þar sem hann þjáðist sjálfur af þunglyndisköstum á unglingsárum sínum. „Maður situr bara sinnulaus og lamaður þangað til þetta bráir af manni,“ segir hann.

Ómar segir viðhorf fólks gagnvart geðsjúkdómum breytast of hægt segir mörg orð sem gripið er til í lýsingum á geðsjúkum fela í sér niðrandi merkingu. „Til dæmis þegar talað var um að einhver væri Kleppari, það var sagt í gamla daga. Hefurðu nokkurn tímann heyrt talað um að einhver sé Vífilsstaðari? Aldrei!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×