Skoðun

Skuldarar leiti álits óháðs þriðja aðila

Óskar Sigurðsson skrifar
Þegar fjölskyldur landsins ganga að samningum við Umboðsmann skuldara eiga þær alls ekki að samþykkja það sem fram kemur hjá honum án álits þriðja aðila. Mælist ég til þess að fólk fari á fund með óháðum sérfræðingi, sem fer yfir þeirra stöðu. Þó svo að Umboðsmaður skuldara eigi að vera réttargæslumaður er alltaf betra að fá álit þriðja aðila á málinu þótt það kosti smá pening, því þegar upp er staðið borgar sig að fá rétta vissu um sína stöðu með mati óháðs sérfræðings.

Mistök geta átt sér stað

Þegar Umboðsmaður fær gögn frá bönkum og öðrum kröfuhöfum geta allaf mistök átt sér stað í skráningu eða ósamþykktir reikningar komið fram. Tek ég tvö dæmi sem geta komið upp.

Dæmi 1: Aðili sem var með bílasamning við fjármögnunarfyrirtæki.

Sá aðili lenti í vanskilum í lok árs 2008 og var með nokkra gjalddaga í vanskilum. Hann reynir að semja um greiðslur á láninu og fær frest. Á meðan hann er með frest koma menn frá vörslusviptingu og taka bílinn án þess að vera með neina pappíra í höndunum. Bíllinn er tekinn upp í skuldina þegar hér er komið við sögu. Árið 2013 kemur bílalánið fram aftur og í svipaðri krónutölu og það var áður fyrr, en lánið var áður fyrr gengistryggt. Hérna átti skuldarinn að borga lánið upp, og láta taka bílinn af sér.

Dæmi 2: Krafa frá verktaka ekki rétt samkvæmt upphaflegu verðtilboði.

Krafa frá verktaka þar sem bar á milli kaupanda og seljanda um verð á jarðvegsvinnu sumarið 2008. Bar þar á milli upphaflegrar samningsfjárhæðar og þeirrar fjárhæðar sem innheimt var. Samið er munnlega um verð í upphafi í jarðvegsvinnu að fjárhæð þrjár milljónir. Verkið er unnið og síðan tekur verktakinn mold af landinu án samþykkis landeiganda. Síðan kemur reikningur frá verktaka upp á sex milljónir í kjölfarið, sem er orðin að tólf milljónum árið 2013 hjá Umboðsmanni skuldara.

Að lokum legg ég áherslu á það að þessi sérfræðingur sé óháður fjölskyldunni og ekki tengdur henni persónulegum böndum öðrum en á öðrum viðskiptalegum forsendum, háð því að sérfræðingurinn sé ekki fjárhagslega háður ykkur.




Skoðun

Sjá meira


×