Innlent

Fá ekki upplýsingar um þjófnaði á skrá

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Akureyrarbær hefur ekki ákveðið hvort umsækjendur um starf á öldrunarheimilum þurfi að framvísa upplýsingum um hvort þeir hafi framið auðgunarbrot.
Akureyrarbær hefur ekki ákveðið hvort umsækjendur um starf á öldrunarheimilum þurfi að framvísa upplýsingum um hvort þeir hafi framið auðgunarbrot.
Sakaskrá ríkisins hefur synjað beiðni Akureyrarbæjar um að senda sérstaklega upplýsingar um auðgunarbrot hjá þeim sem sækja um starf á öldrunarheimilum í bænum.

Félagsmálaráð samþykkti um miðjan mars að fá upplýsingarnar til viðbótar venjubundinni beiðni til sakaskár um sakavottorð einstaklinganna.

Inda Björk Gunnarsdóttir, formaður félagsmálaráðs, segir ástæðu ákvörðunar ráðsins vera þá að starfsmenn öldrunarheimila vinni þétt og náið með vistmönnum inni á stofnunum. Engin atvik varðandi þjófnað eða annað slíkt hafi þó komið upp.

„Fólkið hefur aðgang að herbergjum fólks og þetta var sett fram til að setja smá varnagla,“ segir hún. „Þetta er eitt af því sem kom upp þegar við vorum að ræða sakavottorðin, hvort það væri ekki rétt að fylgdi, eins og kynferðisbrot og fíkniefnabrot.“

Fram kemur á vef Akureyrar vikublaðs að sakaskrá hafi ekki heimild til að gefa umbeðnar upplýsingar en umsækjandi geti sjálfur sótt slíkt sakavottorð til sýslumanns. Ástæðan sé sú að ferlið sé bæði kostnaðarsamt og tímafrekt, sem gæti raskað ráðningarferlinu og tímaramma þess.

Inda segir að ekki sé enn búið að ákveða hvort umsækjendur eigi að sækja um upplýsingarnar sjálfir til að vísa fram við umsókn. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×