Skoðun

Nýr valkostur fyrir Reykvíkinga

Erla Margrét Gunnarsdóttir skrifar
Reykjavík stendur á krossgötum. Besti flokkurinn klárar sitt tímabil næsta vor og því er ljóst að nýr meirihluti mun taka við völdum. Björt framtíð vill eigna sér allt þeirra fylgi en það vantar alvöru valkosti fyrir samfélags- og menningarsinnað frjálshyggjufólk í borginni.

Það er vöntun á fólki sem getur unnið með öðru ólíku fólki að sameiginlegum hagsmunum Reykvíkinga. Það er mikilvægt að ólíkir einstaklingar geti unnið saman, það er mikilvægt að þeir sem stjórna Reykjavík í okkar umboði geri allt sem þeir geta til að hugsa um framtíð borgarinnar. Hrókur og riddari eru ólíkir skákmenn, þeir hafa báðir sína kosti og mismunandi getu, saman mynda þeir gott par sem máta í mun færri leikjum en hvor án annars.

Skipulagsmál eru stór partur af því hvernig Reykjavík getur dafnað og því er mikilvægt að fólk með reynslu á því sviði haldi um stjórnartaumana í borginni. Vinstri menn hafa mikið til eignað sér menningu og samgöngumál en í nýju aðalskipulagi borgarinnar eru margar góðar tillögur sem er mikilvægt að ekki verði hent út af borðinu af íhaldssemi einni saman.

Reykjavík er borg fyrir fólk. Hún er borg fyrir fólk sem langar að búa í Reykjavík. Reykvíkingar eiga að hafa val um hvort þeir búi í miðbænum eða í Grafarvogi. Reykvíkingar eiga að hafa val um hvort þeir ferðist til vinnu keyrandi eða með almenningssamgöngum. Reykvíkingar eiga að hafa val eins og aðrir um hvernig þeir haga lífi sínu. Það vantar nýtt og ferskt fólk með reynslu sem skilur mikilvægi valfrelsis, menningar, skipulags og umfram allt hefur áhuga á að gera Reykjavík að enn betri borg.

Fólk er að kalla eftir breytingum. Reykvíkingar höfnuðu Sjálfstæðisflokknum í síðustu kosningum og mun slíkt hið sama gerast aftur í vor ef flokkurinn sýnir ekki að hann sé tilbúinn til breytinga. Ég trúi því að sjálfstæðismenn vilji að flokkurinn þróist og að hann vaxi og dafni með nýju fólki og spennandi verkefnum. Það er kominn tími á endurnýjun, það vantar alvöru valkost fyrir hægrisinnaða borgarbúa.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf sterkan, traustan og jákvæðan einstakling sem kann að vinna með ólíku fólki. Þess vegna hvet ég alla hægrisinnaða einstaklinga til þess að kjósa í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins næstkomandi laugardag. Það er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn geti verið alvöruvalkostur í Reykjavík í kosningunum í vor. Þess vegna kýs ég Halldór Halldórsson í fyrsta sæti á laugardaginn og hvet aðra til að gera slíkt hið sama.




Skoðun

Sjá meira


×