Innlent

Sjóræningjasíðan ekki lengur íslensk

Sjóræningjasíðan The Pirate Bay er ekki lengur íslensk. Vísir greindi frá því í síðustu viku að síðan hefði fengið íslenskt lén en það var skráð á annan stofnanda síðunnar, sem er svíinn Fredrik Neij. Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS, samtaka myndréttarhafa á Íslandi, gagnrýndi þetta harðlega og sagði það augljóst að síðan, sem er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum sem deilir tónlist og kvikmyndum og fleiru, væri kolólögleg.

Jens Pétur Jensson, framkvæmdastjóri Internet á Íslandi, sem sér um skráningu .is léna, sagði í viðtali við Vísi að fyrirtækið myndi ekki svipta sjóræningjasíðuna léni sínu nema að undangengnum dómsúrskurði. Ekki er ljóst hvort úrskurð þurfti til en núna er síðan komin með lénið sx. Það tilheyrir eyjunni Saint Martin sem, sem tilheyrir Hollandi og Frakklandi og er í norðausturhorni Karabíahafsins.

Það er óhætt að segja að staðsetning lénsins sé við hæfi, enda ófáir sjóræningjarnir sem stunduðu sín sjórán á Karabíahafinu fyrr á öldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×