Innlent

Þúsund grænir fánar fari niður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fundarmenn á Austurvelli.
Fundarmenn á Austurvelli.
Náttúruvinir ætla að setja niður þúsund græna fána á Austurvelli í dag, í tengslum við Grænu gönguna. Gangan var farin niður Laugaveg á eftir kröfugöngu verkalýðsfélaganna.

Tilgangurinn með göngunni var að hvetja nýkjörið Alþingi til góðra verka í umhverfismálum og til að minna á að þingið hefur ekki umboð til að framfylgja virkjanastefnu á kostnað náttúrunnar. Þegar boðað var til göngunnar kom fram að nú á kjörtímabilinu er að hefjast verða teknar ákvarðanir um mörg verðmæt náttúrusvæði, t.d. Mývatn og Reykjanesskaga. Landskipulagsstefna sem gerir ráð fyrir háspennulínu og virkjunum á hálendinu mun koma til afgreiðslu hjá Alþingi og fyrir liggur krafa um stórar háspennulínur m.a. á Reykjanesskaga, í Skagafirði og víðar á Norðurlandi. Krafa grænu göngunnar er að náttúru Íslands verði hlíft.

„Í nýliðinni kosningabaráttu voru umhverfismál lítið rædd þrátt fyrir að skoðanakannanir sýni lítinn stuðning við áframhaldandi uppbyggingu virkjana og stóriðju. Þannig reyndust 44% aðspurðra andvíg virkjanaframkvæmdum í Bjarnarflagi við Mývatn en 30,5% fylgjandi í nýlegri könnun sem Capacent-Gallup gerði fyrir Landvernd. Í sömu könnun sögðust 51,3% vera andvíg því að fleiri álver yrðu reist hér á landi en 30,9% voru því hlynnt,“ sögðu forsvarsmenn göngunnar þegar þeir boðuðu til hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×